Ársreikningar

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 20:14:32 (6502)

2001-04-05 20:14:32# 126. lþ. 107.29 fundur 685. mál: #A ársreikningar# (ársreikningaskrá) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[20:14]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, með síðari breytingum.

Með frv. er lagt til að veitt verði fullnægjandi lagastoð fyrir starfsrækslu ársreikningaskrár í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Jafnframt er með frv. þessu styrktur grundvöllur ársreikningaskrár til eftirlits og athugunar á ársreikningum með upplýsingaöflun frá skattyfirvöldum vegna heimildar félaga til að skila samandregnum ársreikningi.

Frv. þetta er lagt fram vegna nýlegs dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 2507/2000, þar sem niðurstaðan var sú að þar sem félagaskrá í skilningi ársreikningslaga hefði ekki verið sett á stofn með lögum, væri í lögum um ársreikninga ekki að finna fullnægjandi lagastoð fyrir ársreikningaskrá.

Í lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, eru ítarleg ákvæði um félagaskrá. Í 9. tölul. 2. mgr. 1. gr. laganna er félagaskrá skilgreind sem hver sú stofnun sem með lögum er fengið það hlutverk að skrásetja félög og afla og geyma gögn um stofnun félaga og starfsemi þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna er félögum sem lögin taka til skylt að senda félagaskrá ársreikninga ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðanda eða skoðunarmanna og upplýsingar um það hvenær ársreikningurinn var samþykktur. Eru þessi ákvæði í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum, sbr. 4. tilskipun ráðsins 78/660/EBE, þar sem fram kemur að í hverju ríki skuli vera stofnun sem taki við ársreikningum félaga og hafi með höndum eftirlit með því að ákvæði laganna um gerð og birtingu ársreikninga séu virt.

Með reglugerð nr. 801/1998, um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga, var sérstakri ársreikningaskrá falið sama hlutverk og ríkisskattstjóra hafði verið falið með fyrri reglugerðum, þ.e. að annast þau störf félagaskrár sem varða móttöku, geymslu og birtingu ársreikninga, úrtakskannanir og athuganir. Það var ekki talið nægjanlegt að fela ársreikningaskrá framangreint hlutverk með reglugerð heldur hefði borið að fela henni það hlutverk með lögum, samanber framangreindan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.

Með frv. er leitast við að koma til móts við þann formgalla sem verið hefur á framkvæmd þessara laga að undanförnu að því er fram kemur í dómi héraðsdóms. Með frv. þessu er fjmrh. einnig veitt heimild til að ákveða aðsetur ársreikningaskrárinnar.

Ég legg þess vegna til, herra forseti, að frv. þessu verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.