Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 11:40:04 (6521)

2001-04-06 11:40:04# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[11:40]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er einfaldlega ekki þeirrar skoðunar að lág verðbólga sem langtímamarkmið sé andstæð markmiðum um fulla atvinnu. Ég held að það sé þveröfugt. Ég held að ef einum tekst að halda jafnvægi og stöðugleika í höfuðstaðnum til lengri tíma litið þá sé það besta tryggingin fyrir stöðugu og góðu atvinnulífi þar sem framboð á vinnu er sem allra mest.

Verðbólgu sem æðir áfram hefur líka fylgt atvinnuleysi sums staðar. Ég minni á ástandið í Finnlandi á sínum tíma. Ég held að þó að tekist hafi að halda uppi atvinnu á Íslandi með bullandi verðbólgu árum saman þá hafi það frekar verið undantekning en regla. Menn hafa býsna oft horft undrandi á þetta efnahagskerfi á Íslandi þar sem verðbólgan geisaði en samt var nóg að gera. Þetta var í raun velmegunarþjóðfélag í samanburði við önnur. En það er ekki það sem við viljum í dag. Ég tel að það sé ekki hægt stilla því þannig upp að við köstum fyrir róða markmiðum um að halda uppi fullri atvinnu og vernda rétt fólks til hennar á kostnað þess að hér sé verðstöðvun til lengri tíma litið.