Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 11:41:52 (6522)

2001-04-06 11:41:52# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[11:41]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur farið yfir sjónarmið Samfylkingarinnar varðandi þær breytingar sem hér eru lagðar til, sem að flestu leyti eru mjög jákvæðar. Mig langar þó til að bæta við örfáum spurningum áður en hæstv. forsrh. kemur til að svara athugasemdum þingmanna. Ég byrja á 3. gr. frv. þar sem fjallað er um meginmarkmið Seðlabanka Íslands, þ.e. að stuðla að stöðugu verðlagi. Með samþykki forsrh. er Seðlabankanum heimilt að lýsa yfir tölulegum markmiðum verðbólgu. Ég tel það mjög jákvætt markmið, en síðan segir:

,,Seðlabankinn skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn meginmarkmiði sínu skv. 1. mgr.``

Í framhaldi af þessu langar mig að velta því upp hvort þá gildi ekki hið sama gagnvart ríkinu, þ.e. til þess að stuðla að því að þau markmið sem Seðlabankanum eru sett í þessu frv., markmið sem hann þarf að vinna eftir, þá taki fjárlög ríkisins mið af þeim. Verður þá í framtíðinni tekin upp sú stefna að fjárlög séu lögð fram til lengri tíma en eins árs? Það er ljóst að fjárlög íslenska ríkisins á ári hverju skipta verulegu máli í þróun efnahagslífsins. Það er löngu tímabært að mínu mati að fjárlög íslenska ríkisins séu lögð fram til lengri tíma en eins árs í senn, bæði til þess að geta séð fyrir þróun efnahagslífsins umfram það sem er í dag og þá ekki síður fyrir þær stofnanir og fyrirtæki sem vinna á vegum ríkisins að gera áætlanir sínar. Telur hæstv. forsrh. ekki að það væri skynsamlegt að a.m.k. þingið og ríkisstjórnin setti sér það markmið að fjárlög verði lögð fram til lengri tíma en gert er í dag?

Í 23. gr. er fjallað um bankastjórn Seðlabanka og fjölda bankastjóra. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram hafa komið, að bakastjóri Seðlabankans ætti að vera aðeins einn. En í 23. gr. segir:

,,Ekki er skylt að auglýsa þessi embætti laus til umsóknar.``

Hver eru meginrökin fyrir þeirri afstöðu að það sé ekki skylda að auglýsa bankastjórastöður Seðlabankans lausar til umsóknar? Mér fyndust það eðlileg vinnubrögð í öllu tilliti, t.d. mætti vitna til laga um opinbera starfsmenn í því sambandi. Mér finnst eðlilegt að viðhafa slík vinnubrögð hverju sinni. Auðvitað stendur aðeins að það sé ekki skylt. Það má auglýsa. En það ætti frekar að vera meginreglan, að embættin væru auglýst hverju sinni.

Síðan tek ég varðandi bankaráðið undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, að það séu í raun engin rök fyrir því að fjölga í bankaráðinu. Mér finnast ekki koma fram fullnægjandi skýringar á því í greinargerðinni, ef hæstv. forsrh. vildi fara aðeins ofan í það. Fyrst og fremst vil ég koma því á framfæri að möguleikar okkar á að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í frv. til laga um Seðlabanka og fara eftir því hvernig þau samtvinnast stefnu ríkisstjórnar í efnahagsmálum hverju sinni. Ég tel því mjög mikilvægt að stefnt yrði að því að fjárlög íslenska ríkisins verði lögð fram til lengri tíma en eins árs í senn.