Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 11:46:19 (6523)

2001-04-06 11:46:19# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[11:46]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. fyrir undirtektir þeirra og fróðlegar og málefnalegar ræður um þetta mikilvæga mál.

Ef ég vík að nokkrum þeim þáttum sem menn hafa fjallað um, og þá kannski í öfugri röð, taka það sem hefur verið nefnt síðast, þá er það svo vegna þess sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir nefndi að það mundi ekki vera í lögum Seðlabanka fjallað um slíka hluti sem lúta að fjárstjórn ríkisins eða fjárlagaumhverfinu yfirleitt. En það er alveg hárrétt að mínu mati hjá hv. þm. að þessi hin nýja skipan gerir kröfu til að markmið ríkisstjórnar á hverjum tíma í fjárlagaefnum séu skýr til lengri tíma horft og það sé aukin festa sem þar gildi enda yrði erfiðara fyrir Seðlabankann að ná þeim markmiðum sem honum er sett ef framganga ríkisvaldsins að öðru leyti í fjárlagalegum efnum væri óvæntum sviptingum háð, menn hefðu ekki lagt línurnar til lengri tíma.

Hitt er svo aftur annað mál sem við hv. þm. þekkjum að reyndin er sú að um þá þætti sem ákveðnir eru til lengri tíma er ákveðin tilhneiging til að þenja út útgjöld í síðari hluta áætlana. Þetta þekkjum við til að mynda í hafnaáætlunum og þetta þekkjum við í vegáætlun. Menn hafa aðeins tilhneigingu til þess, sem kannski er vonlegt, að belgja út síðari hluta slíkra áætlana og síðan hafa ríkisstjórnin, þingmeirihluti og einstök kjördæmi slegist töluvert harkalega við fjárlagagerð hverju sinni að varðveita þessar áætlanir í framkvæmdum er snúa til að mynda að flugvöllum, höfnum og vegagerð þannig að ekki er endilega víst að fjárlög til lengri tíma mundu hafa aukna festu í sér hvað þetta varðar.

Varðandi fjölgun í bankaráðinu þá telja menn að við þessa afmörkun sé rétt að hafa skýrari skil á milli bankastjórnarinnar annars vegar og bankaráðsins hins vegar og auka eftirlitshlutverk bankaráðsins. Í því sambandi var talið rétt í þeirri nefnd sem fjallaði um þetta að fjölga í bankaráðinu. Það er ekki út af fyrir sig nein forskrift frá ríkisstjórninni eða frá forsrn. til nefndarinnar heldur verður það niðurstaða nefndarinnar og ég get alveg sætt mig við þá niðurstöðu og jafnvel þá niðurstöðu að nefndin kjósi sjálf formann bankaráðsins en ekki ráðherrann eins og nú er. Ég held að það sé út af fyrir sig til bóta.

Varðandi það hvort eigi að auglýsa sérstaklega stöðu seðlabankastjórans þá er það þannig að þessar stöður voru yfirleitt ekki auglýstar. Talið var heimilt að auglýsa þær ekki. Síðan tók einstaka ráðherra upp á því að auglýsa samt þó að það væri ekki skylt og var það oft fróðlegt og skemmtilegt. Heilu menntaskólarnir sóttu um til að undirstrika að stöður af þessu tagi væru ekki auglýstar þannig að mark væri á takandi enda eru slíkar stöður, hygg ég, aðeins auglýstar í einu landi og í því landi er út af fyrir sig gert ráð fyrir því að búið sé að ákveða þá stöðu fyrir fram, staðan sé þess eðlis. Það sé ekki ástæða til að vera að plata fólk með auglýsingum af þessu tagi.

Síðar kom á daginn við rannsókn lögspekinga á lögunum að þeir töldu að alltaf, alla tíð hefði verið skylt að auglýsa þessa stöðu samkvæmt lögum þannig að menn höfðu ekki fylgt lögunum hvað þetta varðaði og ekki auglýst og stundum auglýst eftir vilja ráðherrans. Þegar auglýst var, þá var algerlega ljóst, eins og menn þekkja, að búið var að ákveða þetta allt saman áður en auglýsingin var birt. Þetta vita allir menn. Þess vegna er þetta nánast hvergi, ég hygg það sé í einu landi, sem stöður af þessu tagi eru auglýstar. Ég held að það sé miklu hreinna og beinna að vera ekki með neinn leikaraskap í þeim efnum.

Þá kem ég inn á það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að, spurninguna um það hvort bankastjórar ættu að vera einn eða þrír. Þetta er spurning sem er fullkomlega eðlilegt að ræða og ég verð að segja að ég hef ekki neina sérstaka fasta skoðun á því yfirleitt hvort bankastjórar eigi að vera einn eða þrír. Í viðskiptabönkum hef ég þó talið að til lengri tíma sé kannski eðlilegt af því að þar sé um viðskiptalegar ákvarðanir að ræða að þar sé bankastjórinn einn, en í seðlabankastjórn þar sem er um hálfpólitískar, þ.e. efnahagspólitískar en ekki viðskiptalegar ákvarðanir að ræða, sé eðlilegra að fleiri fjalli um en áður. Til að mynda var nýverið fjölgað í bankastjórn seðlabanka Svíþjóðar úr þremur í sex, alveg í hina áttina, þannig að mér finnst gilda dálítið öðru máli um fyrirtæki, viðskiptabanka, en svo aftur seðlabanka þar sem menn eru að véla um slíka hluti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti meira að segja á það að til að mynda í Bretlandi er gagnvart meginákvörðuninni, sem snýr að vöxtunum, ekki einungis einn bankastjóri sem ræður og ekki einu sinni undirbankastjórarnir heldur aðrir sem þar koma að, þar á meðal fjórir --- ég hygg að það sé rétt með farið hjá hv. þm. --- fjórir sérfræðingar sem fjmrh. skipar. Þetta var vegna þess að breski fjmrh. réð áður algerlega vaxtafærslum. Þetta var síðan fært til seðlabankans og menn vildu ekki færa það alveg í einu skrefi. Þeir höfðu þess vegna þetta milliráð þar sem fjmrh. skipar fjóra í ráðið.

Nú erum við að færa þetta vald til Seðlabankans, þá til bankastjórnarinnar, og mér fyndist of í lagt, a.m.k. fyrst í stað, um leið að ákveða að seðlabankastjóri skyldi vera einn þannig að allt þetta vald yrði fært í hendur á einum manni. Vel má vera að eftir einhver ár, 10--20 ár, telji menn eðlilegt að sú skipan haldist en mér finnst ekki óeðlilegt þegar maður fikrar sig í þessa áttina að auka vald Seðlabankans að færa það vald ekki allt í hendur í einum manni. Formaður bankastjórnarinnar fær formlega aukið vald, þ.e. hann er skipaður af ráðherra en ekki af bankastjórunum sjálfum eins og nú er reglan, að bankastjórarnir velji til þriggja ára í senn formann bankastjórnarinnar. Þetta hefur þó þýtt að formenn bankastjórnar hafa setið áratugum saman, það eru hæfir og ágætir menn. En nú er þetta gert með þessum hætti. Segja má að það sé ekki neitt stóraukið vald sem formaður bankastjórnar fær við þetta, það er aðallega formleg skipan og þá liggur það skýrar fyrir um þann tíma sem viðkomandi er ráðinn til starfans. Hér er til að mynda ákveðið að bankastjóri sé ráðinn til sjö ára en ekki fimm ára eins og gengur og gerist í kerfinu. Bankastjóri Seðlabankans var áður ráðinn til sex ára, síðan var því breytt í fimm ár með hinni almennu breytingu, en nefndin ákvað sjö ár. Reyndar kom í ljós, sem ég þekkti ekki til, að í þeim ,,kriterium`` sem menn nota til að meta hvort seðlabankar séu sjálfstæðir eða ekki er horft til þess í stigagjöf um það efni til hve langs tíma seðlabankastjórar eru ráðnir. Því skemmri tími, því ósjálfstæðari seðlabanki, vegna þess að þá er ráðherrann sem er með skipunarvaldið talinn hafa bankastjórana frekar í hendi sinni en ella ef skipunartíminn er lengdur. Ég hafði út af fyrir sig gert ráð fyrir því að þetta yrði til fimm ára en nefndin ákvað að leggja til sjö ár, en sums staðar er þetta 8--10 ár varðandi bankastjóra. Þá eru um leið settar skorður við því hversu lengi menn geta setið í þessum stól.

Varðandi það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson kom inn á utan við sviga eins og ég skildi það um að nú væri felld úr lögum heimild Seðlabankans til að tjá sig sérstaklega, þá býst ég við að hv. þm. hafi nefnt þetta í hálfkæringi vegna þess að ástæðan fyrir þessari grein í lögunum var sú að seðlabankastjórum var skylt að fylgja ákvörðunum ríkisstjórnar þó að þær gengju þvert á sjónarmið bankans en við þær aðstæður máttu þeir lýsa sjónarmiðum sínum en síðan áttu þeir að fylgja því sem ríkisstjórnin ákvað. Nú er þessi aðstaða horfin. Þess vegna þarf ekki bankinn að útskýra sérstaklega samkvæmt heimild að hann sé á móti því sem ríkisstjórnin sé að gera þó hann eigi að fylgja því og þess vegna var fellt út það ákvæði sem þannig var tengt. Seðlabankinn hefur allar heimildir eftir sem áður til að tjá sig eins og hann kýs um efnahagsmál. En hann verður þá að sæta því eins og aðrar stofnanir að ef einhverjum, hver sem það er, finnst að orðalag í þeim efnum sé ekki við hæfi, þá sé það líka sagt. Við eigum ekki að gera stofnanir að einhverjum heilögum páfagörðum hér á landi. Mér finnst það ekki við hæfi.

Varðandi það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi um þolmörkin gagnvart verðbólgumarkmiðunum þá tel ég eðlilegt að á Íslandi þar sem efnahagslífið er sveiflukenndara en annars staðar séu þessi þolmörk aðeins víðtækari. Ég vek athygli á því að varðandi eiginfjármyndunina er röksemdin einnig sú sama, að eiginfjárþörfin sé aðeins meiri vegna þess að efnahagslífið sé sveiflukenndara en annars staðar er.

Út af fyrir sig er það rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi að mörg önnur mikilvæg markmið gilda í þjóðfélaginu og sem við sem stjórnmálamenn hljótum að hafa verulegan áhuga á og okkur hlýtur að greina á um eftir því hvar við skipum okkur í fylkingar og hver okkar sjónarmið og hugsanir kunna að vera. En það sem ég var að leggja áherslu á í þessu sambandi var þetta að ekki sé rétt að færa þessi stjórntæki Seðlabankanum, að fylgja eftir markmiðum öðrum en þeim sem hann getur með góðu móti framfylgt. Það segir ekki að ekki sé mikilvægt að stuðla að því að atvinnustig sé traust enda tel ég að það efnahagslíf sé ekki heilbrigt þar sem atvinnuleysi er til lengri tíma mjög mikið.

Hv. þm. nefndi atvinnuleysið í Evrópusambandinu og nefndi tölur milli 12 og 14 millj. manna. Þá vek ég athygli á því að í þeim tölum er yfirleitt miðað við það, eftir því sem ég best veit, að telja ekki þá sem eru eldri en sextugir eða í einhverjum tilfellum 63 ára með í atvinnuleysinu þannig að þessi tala er mun hærri ef miðað væri við fyrirkomulag okkar. Í annan stað detta þeir sem eru settir á margvísleg námskeið eftir einhverja tíma í atvinnuleysi út úr skráningunni líka þannig að það er til þess fallið að lækka þessar tölur. Atvinnuleysi er því miður í reynd hærra en hér gerist. Það er reyndar þannig, talandi um þenslu, að það er mat flestra hagfræðinga að atvinnuleysi sem er komið niður fyrir 3% eða svo sé orðið þensluskapandi í sjálfu sér. Þess vegna hafa hagfræðingar a.m.k. litið þannig á að atvinnuleysi sem er hjá okkur núna 11/2% sé mínus atvinnuleysi því það sé atvinnuleysi sem sé líklegt til að ýta undir örari kaupmáttarþróun og spennu á vinnumarkaði en það sem sumir hafa kallað heilbrigt atvinnuleysi og fer það orðalag í taugarnar á mjög mörgum.

Varðandi það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi um samstarf við erlenda aðila er þetta fest niður í lögunum. Ekki er gert ráð fyrir að samstarf verði umfram það sem nú er við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, OECD og slíkar stofnanir. En það er sem sagt fest í þann lagaramma sem hér er að mestu leyti að þær heimildir eru fyrir hendi fyrir bankana að taka þátt í slíku.

Varðandi þrautavaraheimildir bankans til þess að greiða götu lánastofnana þá er þar um að ræða lánastofnanir almennt sem eru viðurkenndar í þjóðfélaginu sem þar geta komið til en einnig eru settar hömlur við því og það er ekki hugsunin sú að menn séu að bjarga sjálfstæðum bankastofnunum, hlutafélögum frá gjaldþroti eða þess háttar. Við slíkar aðstæður yrðu þær bankastofnanir að afla sér aukins fjár með útgáfu nýs hlutafjár. Á hinn bóginn er talið skynsamlegt að bankinn hafi heimildir til að grípa inn í til að forða holskeflum í bankaheiminum með tilteknum hætti. Ég held að það sé aðeins til að tryggja aukið öryggi á markaðnum og í fjármálaheiminum. Ég held að það sé til bóta.

Varðandi það sem spurt var um heimildir banka til að gefa út markaðsbréf við tilteknar aðstæður þá er þetta til þess fallið að styrkja skuldabréfamarkaðinn. Ríkissjóður hefur aðeins dregið sig út af markaðnum eða minnkað hlutdeild hans vegna þess að skuldastaða hans hefur batnað mjög mikið. Það er hins vegar almennt séð talið skynsamlegt fyrir heilbrigðan markað að bréf af þessu tagi séu til á markaði til að styrkja markaðinn og sú heimild sem er þarna fyrir hendi er einn þáttur í því efni.

Ég vona að ég hafi komið að flestum þeim spurningum og ábendingum sem voru nefndar. Ég ítreka þakkir mínar fyrir málefnalegar umræður.