Leigubifreiðar

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:45:00 (6543)

2001-04-06 12:45:00# 126. lþ. 108.19 fundur 633. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins þau lokaorð að mér finnst mikilvægt að þessi mál séu skoðuð og ég held að það sé ágæt tillaga sem kemur fram í frv. að færa þessa starfsemi frá ráðuneytinu undir Vegagerðina án þess að ég hafi skoðað það neitt til hlítar.

En varðandi hitt þá held ég að reynslan sé sú að það hafi komið notendum í koll að gera þetta að opinni og frjálsri markaðsstarfsemi. Þetta er ekki sambærilegt við hvaða slíka starfsemi sem er. Það er mjög mikilvægt að tryggja öryggi borgarans og það er mjög mikilvægt að tryggja þjónustu.

Það er nefnilega alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar að leigubílaakstur er hluti af samgöngukerfi þjóðarinnar. Við þekkjum það öll að við þurfum að geta gengið að því sem vísu að fá leigubíl hvenær sem er dags, hvenær sem er sólarhrings allan ársins hrings á virkum dögum sem helgum og þessu hefur verið sinnt bærilega af þeim fyrirtækjum sem starfrækja þessa þjónustu. En að því munum við ekki geta gengið sem vísu ef við höldum inn í það fyrirkomulag sem mér heyrist þingmenn Samfylkingarinnar vera að leggja til í þessu máli.