Leigubifreiðar

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:46:45 (6544)

2001-04-06 12:46:45# 126. lþ. 108.19 fundur 633. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:46]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær undirtektir sem frv. hefur fengið hjá hv. þm. en fara inn á nokkur atriði sem hv. þm. nefndu og spurðust fyrir um.

Fyrir það fyrsta spurði hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hvort samráð hefði verið haft við stéttarfélögin. Það hefur verið haft samráð við stéttarfélögin. Þau hafa fylgst með því sem unnið hefur verið og undirbúið í ráðuneytinu. Ástæðan hefur auðvitað verið sú að uppi hafa verið vandamál og nokkrar deilur vegna þess kerfis sem er í dag. Starfandi eru þrjú stéttarfélög eins og er og ráðuneytið hefur að sjálfsögðu þurft að hafa samstarf og samráð við þau með ýmsum hætti. Miklar deilur hafa verið m.a. um aðkomu umsjónarnefndar sem hefur gegnt mjög þýðingarmiklu og mikilvægu hlutverki í stjórnsýslunni og það hefur verið gagnrýnt að þrír fulltrúar eru í þeirri nefnd og stéttarfélögin telja sig ekki öll hafa haft jafnan aðgang að ákvörðunum nefndarinnar. Um það hefur m.a. verið deilt um. Komið hafa miklar athugasemdir um þá framkvæmd alla.

En hvað um það. Umsjónarnefndin hefur lagt sig mjög fram um að vinna verk sitt vel, mjög vandasamt verk, og ég tel að það sé enginn áfellisdómur um starf nefndarinnar þó að um hana hafi kannski verið deilur og að við séum að leggja til breytt skipulag, öðru nær.

Hv. þm. spurði jafnframt hvort skoðað hafi verið að opna greinina, gefa þetta frjálst. Fleiri hv. þm. nefndu það. Við höfum að sjálfsögðu skoðað það í ráðuneytinu hvort það hefði átt að stíga það skref til fulls og setja einungis ramma um það hvaða skilyrði menn þyrftu að uppfylla. Að öðru leyti gætu allir sinnt þessari þjónustu og gert út leigubíla. Niðurstaðan varð sú að fara ekki þá leið.

Nú eru 570 leyfi í Reykjavík og það verður að segjast alveg eins og er að færri komast að en vilja. Mjög mikil eftirspurn er eftir leyfum. En það er jafnframt upplýst að fleiri leigubílar eru á íbúa á höfuðborgarsvæðinu en í flestöllum borgum sem við höfum kannað og jafnvel tvöfalt fleiri þannig að ég held að afkoma þessara rekstraraðila, afkoma leigubílstjóranna, gefi ekki tilefni til þess að það mætti gera ráð fyrir mikilli fjölgun. Auðvitað er erfitt að þurfa að standa fyrir því að takmarka aðgang að atvinnugrein. En þetta hefur verið niðurstaðan og ég held að um það hefði orðið mikill ófriður gagnvart starfandi leigubílstjórum ef þetta hefði verið opnað. Ég verð að viðurkenna að ég býst við að þá væru fleiri en einn leigubílstjóri á þingpöllunum ef við værum að fjalla um það. Niðurstaða mín varð því sú að stíga ekki það skref heldur breyta stjórnsýslunni, gera hana traustari og aðgengilegri og koma þannig til móts við starfandi leigubílstjóra.

Það að færa stjórnsýsluna til Vegagerðarinnar byggir á því að við höfum mjög góða reynslu af því. Eins og kom fram hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur hefur Vegagerðin viss verk að vinna sem tengjast öðrum greinum og töldum við þess vegna falla vel að þeim verkum að fela Vegagerðinni það sem henni er ætlað að gera.

Áhrif á verðlag með því að gefa þetta frjálst. Auðvitað mætti búast við að einhverjar breytingar gætu orðið á því. Út af fyrir sig er líklegt að harður slagur yrði á milli leigubílstjóra og stöðva ef greinin yrði gefin alveg frjáls og þar með fengju neytendur að njóta þess. Á þetta þarf að líta allt saman. En við gerum ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi hvað þetta varðar þannig að það er ekki til umræðu á þessari stundu.

Hvað varðar það sem nefnt er um trúnaðarbrest, þá hafa verið, eins og ég sagði áðan, miklar deilur á milli stéttarfélaganna og deilur við umsjónarnefndina og í rauninni við ráðuneytið. Sum stéttarfélögin hafa lýst mikilli óánægju sinni og hafa þá ekki staðið þannig að málum eins og umsjónarnefndin hefur ætlast til og þess vegna er þetta nefnt. En ég geri ráð fyrir því að með þessari skipulagsbreytingu geti þetta orðið breyting til mikilla bóta og ég hef ekki heyrt annað frá fulltrúum stéttarfélaganna en að þeir horfi til þess eins og ég geri og ráðuneytið, að þetta verði til bóta.

Hv. þm. Jón Bjarnason talaði um að þetta væri hluti af almenningssamgöngum. Auðvitað er það svo. Þetta er þjónusta sem við þurfum á að halda. En hann sagði jafnframt að ekkert væri sagt um skyldur. Skyldurnar eru auðvitað fyrst og fremst gagnvart bifreiðastöðvunum. Þær þurfa að setja sínar reglur. En það er ekki verið að lýsa því í smáatriðum í löggjöfinni hvernig bílar eða þjónustan eigi að vera. Eins og við vitum gera neytendur auðvitað kröfur til leigubílstjóra og það er ekki eðlilegt að mínu mati að setja í löggjöf nákvæmar útskýringar á því hvernig þjónustan eigi að vera.

Hv. þm. Jón Bjarnason nefndi aðkomu sveitarfélaganna að þessu máli og mátti heyra á honum að hann teldi eðlilegt að sveitarfélögin kæmu að því. Skemmst er frá því að segja að ég lét kanna hvort sveitarfélögin væru tilbúin til þess að taka þetta að sér en óhætt er að segja að ekki kváðu við mikil húrrahróp þannig að niðurstaðan varð sú eftir að hafa farið yfir þetta að sveitarfélögin lýstu sig ekki viljug til að taka við þessu. Engu að síður tel ég ekkert útilokað og teldi eðlilegt að í viðræðum við sveitarfélögin um margvíslega verkaskiptingu og breytingar á verkefnum á milli sveitarfélaga og ríkisins mætti taka þetta mál upp. Ég tel fullkomlega eðlilegt að sveitarfélögin kæmu beint að þessu. En hér veljum við þessa leið sem ég hef mælt fyrir.

Hv. þm. Jón Bjarnason spurðist fyrir um það hvort hér væri verið að búa til mikla og dýra stjórnsýslu. Það held ég ekki. Það er ekki reitt hátt til höggs með það. Og hvað varðar gagnagrunninn sem hann nefndi þá er í rauninni verið að ramma betur inn það sem er í dag, þ.e. upplýsingar um bílstjóra þegar þeir fá leyfi og það er haldið utan um það allt saman. En hér er hins vegar verið að leggja á ráðin um að þetta verði allt saman með formlegum, skipulegum og góðum hætti undir eftirliti þeirra aðila sem þurfa að fylgjast með upplýsingasöfnun og síðan hafi bifreiðastöðvarnar að sjálfsögðu þann aðgang að þeim upplýsingum sem eðlilegt er að þær hafi og stéttarfélögin.

Herra forseti. Ég held að ekki hafi miklu meira komið fram sem ég þyrfti að svara. Ég þakka fyrir ágætar undirtektir við frv. og vil vekja athygli á því í blálokin að í Reykjavík hefur 570 leyfum verið úthlutað, 40 á Suðurnesjum, 22 á Akureyri og sjö á Selfossi þannig að þetta er út af fyrir sig ekki mjög stór hópur sem hér er verið að fjalla um.