Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 14:29:44 (6559)

2001-04-06 14:29:44# 126. lþ. 108.20 fundur 634. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir viðbrögð hv. þm. við þessu frv.

Hv. þm. Jón Bjarnason saknar stefnu í almenningssamgöngum. Hann hefur komið því mjög rækilega á framfæri í umræðunni í dag. Stefnan í almenningssamgöngum er fyrst og fremst sú að gefa aðilum tækifæri, eins og þetta frv. gerir, til að starfa eðlilega innan rammans sem settur er um um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi. Við getum hins vegar ekki sett í lög hvernig fólksflutningafyrirtæki eigi að skipuleggja rekstur sinn að öðru leyti en því að við gefum út sérleyfi. Við höfum gert það og gerum ráð fyrir að halda því áfram.

Varðandi það sem hv. þm. kom inn á um kostnað og stjórnsýslu vegna þessa, þá kemur skýrt fram í fylgiskjali með frv., í umsögn fjmrn., hvernig því er háttað. Það er gert ráð fyrir því að Vegagerðin annist eftirlit og útgáfu rekstrarleyfa og það er tilgreint nánar eins og kemur fram í því fylgiskjali.

Varðandi umræðuna um útgáfu sérleyfa til fólksflutninga, vegna þess sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi, þá eru eins og hv. þm. þekkja gefin út tiltekin sérleyfi vegna fólksflutninga. Þau renna út árið 2002. Í gangi er heilmikil vinna og úttekt á því hvernig hægt sé að endurskipuleggja þessa starfsemi, þ.e. endurskipuleggja rekstur þessara fyrirtækja með það í huga að hagræða og einfalda. En eins og fram kom hjá hv. þm. þá fara sum þessara fyrirtækja um svipaðar slóðir, stundum hvert á eftir öðru. Í ljósi þess að verið er að leita eftir samstarfi í því skyni að hagræða þá tel ég eðlilegt að gera ekki ráð fyrir að bjóða allt út fyrr en árið 2005. Engu að síður er heimild til að gera það fyrr ef ástæða þykir og hagkvæmt reynist. Meginreglan er sú að bjóða út þessi sérleyfi. Ég held að það sé afar mikilvægt. Frv. kveður skýrt á um að Vegagerðin skuli gera þjónustusamninga við þessi fyrirtæki þar sem viðfangsefnið verði skilgreint, hvaða greiðslur er um að ræða, hvaða skyldur o.s.frv. Ég held því að sá rammi sem þetta frv. setur sé eðlilegur. Ég vænti þess að frv. nái fram að ganga fyrir þinglok.