Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 17:10:12 (6607)

2001-04-06 17:10:12# 126. lþ. 108.36 fundur 620. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (kosningarréttur erlendra ríkisborgara) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[17:10]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég stend upp til að lýsa stuðningi mínum við frv. til laga sem hér er lagt fram um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna og hv. flm. hefur gert mjög vel grein fyrir.

Ég tel að þetta frv. taki á miklu jafnréttis- og réttlætismáli og það sé í rauninni svolítið skammarlegt að ekkert slíkt mál skuli hafa komið fram fyrr á þingi þegar tekið er tillit til þess að strax þegar réttindi norrænna manna að þessu leyti voru ákveðin 1982, þá eru þó tveir þingmenn á hv. Alþingi sem lýsa yfir stuðningi við það sjónarmið að þetta eigi að eiga við um alla erlenda ríkisborgara.

Samkvæmt reynslu má reikna með því að mjög stór hluti af þeim hópi fólks sem staddur er á Íslandi og hefur verið hér búsettur í þrjú ár ætli sér að setjast hérna að. Reynslan frá öðrum löndum ætti að kenna okkur Íslendingum að mjög mikilvægt er að við tökum vel á móti þessu fólki og leyfum því að vera einu af oss, ef svo má segja, vegna þess að það sem komið hefur af stað vandamálum varðandi útlendinga annars staðar í Evrópu er fyrst og fremst það að þeir innfæddu hafa verið með nefið upp í loftið og ekki viljað taka þetta fólk í hópinn eða veita því sjálfsögð réttindi. Ég tel að með því að veita þessu fólki aðgang að því að kjósa í sveitarstjórnarkosningum, þó ekki sé nema í sveitarstjórnarkosningum --- ég vildi alveg taka það til athugunar að leyfa þeim almennt að kjósa í kosningum á Íslandi ef þeir hafa verið hér búsettir í þrjú ár jafnvel þótt þeir hafi erlent ríkisfang. En kannski mundu ekki margir taka undir það með mér. Ég tel að þetta væri mikilvægt skref fyrir þetta fólk sem ætlar sér að vera hér búsett áfram og sem við Íslendingar þurfum svo sárlega á að halda því ekki gengi okkur vel að reka t.d. elliheimili, barnaheimili og sjúkrahús í dag ef við nytum ekki starfskrafta þessa fólks. Sumir hagfræðingar halda því fram að stór hluti af þeim hagvexti sem orðið hefur á Íslandi á undanförnum árum sé einmitt því að þakka hversu vel við njótum vinnuframlags frá þessum hópi. Mér fyndist mjög sjálfsagt að þakka fyrir sig með því að veita þessu fólki þau sjálfsögðu réttindi sem gert er ráð fyrir í frv.

Ég held hins vegar að við eigum að miða við árin þrjú eins og hér er gert ráð fyrir. Við eigum ekki að láta þetta gilda um alla sem hér búa og starfa og hafa erlent ríkisfang. En ég tel mjög eðlilegt að miða þetta við árin þrjú sem gefa, ef ég man rétt, réttindi til græna kortsins. Einnig mætti þá miða við að fólk mætti kjósa alla vega til sveitarstjórna.

Ég þakka frv. og vona að það fái gott gengi á hinu háa Alþingi.