Verð á grænmeti

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:18:15 (6622)

2001-04-23 15:18:15# 126. lþ. 109.1 fundur 467#B verð á grænmeti# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. landbrh. að á smásölumarkaðnum er komin upp fákeppni sem stappar nærri einokun og í skjóli þess ástands hafa smásölukeðjurnar haldið uppi gríðarlega hárri álagningu á grænmeti og fjölmiðlar hafa nefnt dæmi um 80--100% álagningu á síðustu dögum. Það er ósvinna sem allir verða að taka höndum saman um að vinna gegn.

Hins vegar er það þannig, herra forseti, að það var hæstv. landbrh. sem úr þessum stóli og að eigin frumkvæði lýsti því yfir að af snarræði mundi hann bregðast við og lækka innflutningstolla og auðvitað er komið að því. Hann er í ákveðinni siðferðilegri skuld við neytendur. Hvers vegna? Vegna þess að það er í skjóli framkvæmdar hans eigin ráðuneytis sem heildsölunum tókst að hafa uppi hið ólöglega samráð. Það er ekki formaður Samfylkingarinnar sem heldur þessu fram, þetta lesa menn út úr skýrslu samkeppnisráðs.

Því spyr ég aftur: Hvenær eigum við að verða vitni að snarræði hæstv. landbrh. sem hann lofaði sjálfur úr þessum stóli?