Girðingalög

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 16:51:57 (6656)

2001-04-23 16:51:57# 126. lþ. 109.23 fundur 636. mál: #A girðingalög# (heildarlög) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[16:51]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til girðingalaga. Frv. er flutt á þskj. 1013 og er 636. mál á þessu hv. þingi.

Með frv. er lagt til að skipting girðingakostnaðar á landamerkjum verði alltaf til helminga og bætt er inn í lögin ákvæðum varðandi rafgirðingar, en hingað til hefur ekki verið gert ráð fyrir rafgirðingum í girðingalögum. Með frv. er. einnig lagt til að taka skuli girðingu upp ef hætt er að nota hana svo hún valdi ekki tjóni. Ákvæði er varða veggirðingar eru felld niður en þau eru í vegalögum og ekki þykir ástæða til að fjalla um þær á tveimur stöðum. Ákvæði girðingalaga gilda þó ávallt um uppsetningu og tæknilegan frágang girðinga. Með frv. er auk þess lagt til að í reglugerð verði fjallað um það hvaða skilyrði girðing þurfi að uppfylla til að teljast fullnægjandi varsla fyrir hverja búfjártegund. Í reglugerð er einnig fjallað um hvernig hátta skuli undirbúningi, uppsetningu, gerð og tæknilegum frágangi girðinga, hliða o.fl. sem tengist girðingum beint.

Virðulegi forseti. Við þessa umræðu verður ekki farið ítarlega í þær breytingar sem lagðar eru til með frv. en vísað til greinargerðar og athugasemda við einstakar greinar sem er að finna í sjálfu þingskjalinu.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.