Stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 14:25:24 (6885)

2001-04-26 14:25:24# 126. lþ. 113.96 fundur 489#B stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir# (umræður utan dagskrár), Flm. JB
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör og þingmönnum í þessari umræðu.

Fyrst varðandi hv. þm. Kristin H. Gunnarsson. Hann taldi að ekki væri rétt eftir sér haft sem ég var með hér í ræðustól. Ég er með þetta í nokkrum eintökum, blaðaviðtöl, útvarpsviðtöl og sjónvarpsviðtal. Ég get því látið hann hafa eintak af þessu ef hann hefur gleymt hvað hann hefur sagt, en ég vona að hann gleymi ekki svona erindunum sem Byggðastofnun eru send eins og hann gleymir þeim ummælum sem hann hefur látið hafa eftir sér varðandi þetta mál.

Herra forseti. Mér er alveg ljóst að breyting hefur orðið í stjórnskipun Byggðastofnunar. Ég var í sjálfu sér ekki að gera persónulega athugasemd við skipan ráðherra á þeirri nefnd sem hún var að skipa. Ég var að gera athugasemdir við þau upphlaup og þá óstjórn og þau ómarkvissu vinnubrögð sem þarna lýstu sér.

Mér er næst að halda að hæstv. iðnrh. hafi í rauninni gleymt því að gera stjórninni grein fyrir því að hún var í rauninni valdalaus samkvæmt lögum. Hún var bara sett þarna meira og minna upp á punt. Hún hefur kannski gleymt því að gera hæstv. formanni stjórnar Byggðastofnunar grein fyrir því að hann réð í rauninni engu, hann þurfti að bera hvert einasta orð undir ráðherra til að það hefði einhverja vigt. Ég held það væri afar mikilvægt að hæstv. ráðherra setti stjórnarformanni Byggðstofnunar erindisbréf þannig að hann vissi þá hvaða hlutverk hann hefði eða hvort hann hefði nokkurt hlutverk í þessu máli, þannig að við losnuðum við þær deilur sem við stöndum nú frammi fyrir innan flokksins um þetta.

Herra forseti. Ég vil svo ítreka að þessi skýrsla um framkvæmd byggðaáætlunar komi hér fram þannig að við getum rætt hana fyrir þinglok og að alþingismönnum gefist tækifæri til þess að koma formlega á framfæri áherslum sínum fyrir vinnu við næstu byggðaáætlun. Ég ítreka þá ósk mína, herra forseti, til hæstv. iðnrh.