Stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 14:27:44 (6886)

2001-04-26 14:27:44# 126. lþ. 113.96 fundur 489#B stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta hafi í rauninni verið ágætisumræða og ágætt að fara yfir þetta mál.

Í sambandi við síðustu orð hv. frummælanda, eins og kom fram í máli mínu áðan, afgreiddi stjórn Byggðastofnunar skýrsluna í gær á stjórnarfundi og þá er ekkert annað en að prenta hana og dreifa henni í þinginu og taka hana síðan til umræðu og þó fyrr hefði verið.

En það liggur við að ég spyrji eftir þessa umræðu hvert vandamálið er. Er eitthvert vandamál? Ég sé það ekki.

Mér finnst að það að fara að þessum málum á annan hátt eins og niðurstaða ráðuneytisins var að gera geti orðið þessum málaflokki til framdráttar og það veitir ekkert af.

Ég þakka sérstaklega orð hv. þm. Gísla S. Einarssonar að hann skuli líta þannig á að hér sé um nýskipan að ræða og það sé um að gera að horfa á hlutina þannig.

Hins vegar taldi hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir að það skipti ekki máli hverjir vinna þetta. Ég taldi að það skipti máli. Og ég tel að það skipti máli. Ég held að við stjórnmálamenn séum kannski dálítið upptekin af því að fáir geti unnið mikilvæg verk nema við sjálf. Með því móti að fá fólk úr atvinnulífinu, úr menntageiranum, frá sveitarfélögunum að þessari vinnu þá held ég við breikkum umræðuna. Það er það sem ég hef í huga þegar þessi ákvörðun er tekin.

Varðandi tillögu Vinstri grænna um að hafa sérstakt sumarþing um byggðamál þá finnst mér þau vera voguð að þora að nefna þá tillögu því hún hefur ekki verið mikið nefnd síðan fyrri umr. fór fram því þeir sáu strax að það er algjörlega ómöguleg aðferð til að vinna gagn í byggðamálum. Ég óttast að ef þetta hefði verið samþykkt þá hefði fólkið bara bókstaflega flykkst af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Ef við hefðum ætlað að standa í mánuð á hv. Alþingi til þess að rausa um vandamál, sem eru vissulega til staðar, hefði það ekki orðið landsbyggðinni til framdráttar. Þess vegna fagna ég því að ég heyri að tillagan nýtur ekki stuðnings þingmanna.