Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 15:55:17 (6891)

2001-04-26 15:55:17# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[15:55]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hlustað á innblásna ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Ein meginröksemd hv. þm. gegn því frv. sem er til umfjöllunar er að vegið sé að sjálfstæði ákæruvaldsins. Í einfeldni minni taldi ég að í því fælist andstaða við málskot til dómsmrn. Þess vegna kom mér á óvart að sjá að í brtt. frá hv. þm. kemur fram að það málskot er til staðar. Ég fagna því að þingmaðurinn hefur áttað sig á hvílíka réttarbót fyrir borgarana er um að ræða í frv.

Spurningin sem ég vildi varpa fram til hv. þm. er: Hvernig rökstyður hann að með því fyrirkomulagi sem lagt er til í brtt. sé sjálfstæði ákæruvaldsins tryggt? Þarna er sem sagt verið að færa ákvörðun dómsmrn. til Alþingis og færa rannsóknina frá sérstökum saksóknara til rannsóknarnefndar. Ég fæ ekki séð annað en að röksemdin um að verið sé að vega að sjálfstæði ákæruvaldsins, varðandi það frv. sem liggur hér fyrir, eigi þá ekki síður við varðandi þá brtt. sem hv. þm. hefur lagt hérna fram.

Annað atriði sem ég tel líka ástæðu til að halda til haga er að hv. þm. hefur áhyggjur af því að pólitísk afskipti felist í því frv. sem hér liggur fyrir. Hvernig getur hv. þm. rökstutt, ef hann hefur á annað borð áhyggjur af þessu, að það séu einhver minni pólitísk afskipti ef Alþingi, sem er skipað 63 stjórnmálamönnum, tekur ákvörðunina?