Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 15:59:48 (6893)

2001-04-26 15:59:48# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það síðasta sem hv. þm. sagði þá vil ég svara því þannig að það er ekki verið að breyta neitt frá því sem þeir lögðu til á sínum tíma.

Ég varpaði fram spurningu til hv. þm. um hvernig hann rökstyddi það að sú tilhögun og það fyrirkomulag sem lagt er til í brtt. feli í sér eitthvað meira sjálfstæði ákæruvaldsins. Ég vil fá svar við því.

Annað atriði sem mér finnst ástæða til að halda til haga er það sem hv. þm. sagði við 1. umr. þegar hann var að reifa málið. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Ég held að almennt sé mjög gott að hægt sé að kæra ákvarðanir ríkissaksóknara til dómsmrn. og afgreiða á þann hátt sem þessi breyting kveður á um, þ.e. að settur yrði sérstakur ríkissaksóknari í þeim tilvikum sem ráðherra ákveður að beita ákvæðum ríkissaksóknara.``

Þetta kom fram við 1. umr. málsins. Hvað hefur þá breytt afstöðu hv. þm. frá því fyrir nokkrum vikum í þessu? Þarna kom allt önnur afstaða fram en hann hefur lýst í ræðustóli í dag.