Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 18:43:06 (6925)

2001-04-26 18:43:06# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[18:43]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Vel má vera að sumum þyki þetta ekki koma þessu beint við sem við erum hér að fjalla um, þ.e. menntunin. En það gerir það einmitt alveg þráðbeint. Því náist ekki árangur í menntun þess fólks sem hér er verið að fjalla um og réttindum þess þá eru þessi lög ekki virk. Það er svo einfalt. Bakgrunnur þess lagafrv. sem við fjöllum hér um er hið grafalvarlega mál. Þess vegna er sérstök ástæða til að huga að því hvernig hér mætti gera úrbætur.

Í kynnum mínum af uppbyggingu á námi í samstarfi við atvinnulífið hef ég einmitt reynt að þeir sem búa yfir þeirri þekkingu sem við viljum ná og taka þátt í að byggja hana upp og meta hana vilja ekki endilega koma og ræða um námið, þeir vilja vera þátttakendur í kennslunni. Þess vegna höfum við gjarnan sent nemendur til þessara manna, samið við þá um að kenna þeim skilgreinda pakka. Þeir eru þá kennarar og prófdómarar samtímis og þannig verða þeir hluti af þessu menntunarkerfi en standa ekki fyrir utan það. Þetta tel ég afar mikilvægt.

Eins vil ég benda á að eitt lykilatriðið í uppbyggingu á menntun á verklegum greinum er að stundafjöldi sem fer í verkmenntun sé jafnt metinn til eininga í skólakerfinu og þær stundir sem varið er til bóklegs náms. Því fer fjarri að svo sé. Meðan svo er þá er erfitt að byggja upp trúnað í uppbyggingu verknáms. Verknám, verklegar æfingar og tími sem fer í verklegt nám verður að vera jafnmetinn þeim tíma sem fer í bóklegt nám til þess að sátt náist um það.