Ráðuneyti lífeyris, almannatrygginga og vinnumarkaðsmála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 19:26:26 (6943)

2001-04-26 19:26:26# 126. lþ. 113.12 fundur 179. mál: #A ráðuneyti lífeyris, almannatrygginga og vinnumarkaðsmála# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[19:26]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem er endurflutt þingmál. Hún hefur líklega þrisvar sinnum áður verið flutt en aldrei náð því að verða útrædd og er þó málið ekki flókið.

Málið gengur einfaldlega út á að ríkisstjórninni verði falið að kanna hvort skynsamlegt væri að færa undir eitt ráðuneyti öll málefni sem varða lífeyris-, almannatrygginga- og vinnumarkaðsmál þannig að til yrði trygginga-, vinnumarkaðs- og lífeyrismálaráðuneyti. Þannig mundu málefni lífeyrissjóða og lífeyrissparnaðar, málefni almannatrygginga, málefni sem varða félagslega framfærslu og vinnumarkaðsmál, þar með talið og ekki síst hlutir sem lúta að atvinnuleysisbótum og málefnum atvinnulausra, færast öll saman á einn stað í Stjórnarráðinu. Eins og menn þekkja dreifast þau býsna víða og það er mat margra sem til þessara hluta þekkja að það hafi torveldað mjög þá nauðsynlegu endurskoðun og samræmingu á þessu sviði sem mikið hefur verið rætt um en lítið að því unnið.

Þarna koma ýmsir möguleikar til greina, t.d. að færa þessa málaflokka undir eitt af þeim ráðuneytum sem til staðar eru í dag og fara með mál á þessu sviði. Mörg rök hníga að því að það yrði félmrn. Eins mætti eftir atvikum stofna nýtt ráðuneyti sem drægi þessi verkefni og jafnvel fleiri til sín og gæti þá orðið einhvers konar trygginga- eða innanríkismálaráðuneyti að nokkru leyti.

Ég get ekki séð, herra forseti, að það standi mjög sterk rök gegn því að skoða þetta mál. Um það eitt er verið að ræða hér og það eitt er verið að fara fram á. Það má vera svolítið umhugsunarefni, herra forseti, að einföld þáltill. af þessu tagi, sem flutt hefur verið á fleiri en einu kjörtímabili og iðulega komist að miklu fyrr á starfstíma viðkomandi þings en nú, skuli ekki einu sinni fást hér afgreidd. Ef menn eru á móti því að þetta sé skoðað þá væri bara ágætt að fá það fram. Ég skal fullvissa menn um að ég er ekki að tala fyrir mig einan þó ég sé eini flutningsmaður þessa máls. Ég hef í gegnum tíðina rætt við fjölmarga sem að þessum verkefnum koma í ráðuneytum, hjá hagsmunasamtökum og óháða sérfræðinga á þessu sviði og flestum ber saman um að núverandi tilhögun mála sé langt frá því að vera skilvirk eða skynsamleg. Þar af leiðandi hlýtur að koma til álita að setja í gang skoðun á því. Hún gæti tengst þeirri uppstokkun á verkefnum innan Stjórnarráðsins sem oft er verið að ræða um, t.d. endurskipulagningu málefna atvinnuveganna innan Stjórnarráðsins eða öðru í þeim dúr, ef mönnum sýnist svo. En þetta mætti líka skoða sem algerlega sjálfstætt mál. Einu gildir flutningsmann, allt og sumt sem ég hefði áhuga á er að farið yrði rækilega yfir þetta af til þess bærum aðilum.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allshn. Ég geri ráð fyrir að heppilegast væri að hún fjallaði um málið. Það heyrir að vísu undir fleiri en einn málaflokk en sennilega væri það best vistað þar. Hið sama gildir að sjálfsögðu um frv. sem ég mælti fyrir áðan.