Líftækniiðnaður

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 16:36:19 (7068)

2001-04-30 16:36:19# 126. lþ. 115.15 fundur 649. mál: #A líftækniiðnaður# (yfirstjórn málaflokksins) frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[16:36]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta frv. svarar ekki öllum spurningum, svo sannarlega ekki. Ég vil hins vegar halda því fram að með því sé stigið ákveðið skref og með setningu laga í þeim dúr sem hér er gerð tillaga um séum við að stíga mjög mikilvægt skref í sambandi við líftækniiðnaðinn og séum að skipa honum sess í því þjóðfélagi sem hefur ekki verið gert fram að þessu og taka á stjórnsýsluþætti málsins.

Ég tek undir það að við eigum að draga lærdóm af því sem aðrar þjóðir hafa gert á þessu sviði. Mér ekki nákvæmlega kunnugt um hvaða leiðir þar hafa verið farnar fyrst og fremst en tel sjálfsagt og eðlilegt að nefndin kynni sér það mál allt saman. Eins finnst mér ekki óeðlilegt að umhvn. fái þetta mál til umsagnar því að sjálfsögðu varðar þetta líka umhvrn. En framlagning á þessu frv. er í samvinnu við umhvrn. og ég veit ekki betur en að full sátt sé á milli ráðuneyta hvað varðar aðkomu að málinu.

Eins geri ég mér fulla grein fyrir því að aðrar atvinnugreinar koma þarna að líka og þá nefni ég sérstaklega landbúnað og sjávarútveg. Hins vegar er það nú þannig í stjórnsýslu okkar að einhvers staðar verða mál að vera vistuð númer eitt þó að önnur ráðuneyti komi að og ég held að það sé alveg hægt að færa rök fyrir því að málið eigi best heima í iðnrn. þegar á heildina er litið og tel þar vera heilmikla fagþekkingu sem nýtist. En ég ítreka að það eru fleiri ráðuneyti sem þurfa í raun að koma þarna að.

Ég tel að við þurfum í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. nú á þessu stigi, heldur sé þetta dæmigert mál sem þarf að vinna vel í nefnd og efast ég ekki um að hv. iðnn. muni vinna það verk vel.