EES-samstarfið

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:36:00 (7239)

2001-05-09 10:36:00# 126. lþ. 117.2 fundur 720. mál: #A EES-samstarfið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:36]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. fórst vel úr hendi að svara óþægilegum spurningum með tilliti til þess hvernig forsrh. hefur komið fram í umræðunni um EES-samninginn, meinta veikleika hans og áhrifaleysi okkar, og yfirlýsingar hans um að allt sé í stakasta lagi.

Varðandi innskot hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar ætla ég segja þetta um að umskrifa söguna: Ég geri ekkert með það þó að hann sé svekktur út í Jón Baldvin Hannibalsson og það hvernig hann leiddi þessa vinnu. Hann var á móti samningnum þá en gerir sér grein fyrir því núna að samningurinn hefur verið undirstaða þeirrar velsældar sem menn hafa í raun og veru verið að státa af á liðnum árum.

Ég þekki undirbúninginn að EES-samningnum, var þá varaformaður utanrmn., þekki veikleika hans og styrkleika. Herra forseti, vegna athugasemda sem hér koma fram vísa ég til umsagna fulltrúa atvinnulífsins, ASÍ, Samtaka iðnaðarins, blaðagreinar fyrrverandi starfsmanns um það hvenær góður samningur verður vondur samningur og þeirra spurninga sem hefur verið velt upp um það hvað við getum gert til að bæta stöðu EES-samningsins og bið menn að lesa þær spurningar sem ég hef lagt fyrir utanrrh. áður en þeir fara að gera mér upp einhverjar meiningar. Þessi álit eru í fullu samhengi við þær spurningar sem Evrópunefnd Framsfl. hefur velt upp í nefndaráliti sínu og sem er rétt að gera. Við eigum að velta upp álitamálum, við eigum að tryggja að meðan við ætlum að búa við þennan samning sé hann eins góður og unnt er, að lifa með honum, að byggja hann upp. Hann verður að vera lifandi, það verður að endurnýja hann, hann er ekki eitthvað sem var búið til og stendur eilíflega. Það kom fram í upphafi og það er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir.

Þess vegna eru þessar spurningar bornar fram til utanrrh. hvernig hann hafi beitt sér. Hann hefur gert það að hluta til, herra forseti. Hann kemur með upplýsingar um að hann hefur leitað eftir því að tekið verði á sumum þeirra mála sem ég er að spyrja um. Að öðru leyti stendur hann nokkuð máttvana gagnvart þróun sem er að verða. Það má aldrei verða þannig að við séum svo hrædd við það sjálf að eitthvað sem við höfum í höndum og er hugsanlega að veikjast veikist vegna umræðunnar, að við þorum ekki að taka hana.

Það er nóg að hér þori menn ekki að ræða kosti og galla hugsanlegrar Evrópusambandsaðildar, það er verra ef þeir þora ekki að ræða hugsanlega kosti eða veikleika EES-samningsins. Þetta segi ég, herra forseti, manneskja sem hefur aldrei talað fyrir inngöngu í Evrópusambandið þannig að menn komi nú ekki upp og geri mér upp þær skoðanir líka. --- En það getur verið að eftir skoðun á því eigi ég eftir að rétta upp hönd með því engu að síður.