Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:12:13 (7251)

2001-05-09 11:12:13# 126. lþ. 117.5 fundur 556. mál: #A Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HBl
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:12]

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég flyt fyrirspurn til hæstv. umhvrh. um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn:

1. Eru uppi áform um að flytja rekstur Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn norður í Mývatnssveit, sbr. lög nr. 36/1974?

2. Hversu margir starfsmenn auk forstöðumanns hafa verið í fullri vinnu við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn sl. fimm ár?

Ástæðan fyrir síðari fyrirspurninni er sú að þær fréttir fóru á kreik í vetur að þrír starfsmenn Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn væru búsettir á Norðurlandi. Mér leikur forvitni á að vita hvort rétt er að svo sé og þá hvort þeir búi í Mývatnssveit eða hvort þeir séu búsettir einhvers staðar annars staðar á Norðurlandi. Ég er ekki að ræða um hlutastörf eða verktaka. Ég á að sjálfsögðu við starfsmenn í fullu starfi.

Ég spyr einnig hvort rekstur náttúrurannsóknastöðvarinnar verði fluttur norður. Ástæðan fyrir þeirri fyrirspurn er að sjálfsögðu sú að samkvæmt hæstaréttardómi var óheimilt að staðsetja m.a. Siglingastofnun í Kópavogi. Hún skyldi vera í Reykjavík þar sem annað hafði ekki verið fram tekið. Í þessu tilviki er skýrt fram tekið að náttúrurannsóknastöðin eigi að vera við Mývatn. Ég lít svo á að óhjákvæmilegt sé að þar sé regluleg starfsemi árið um kring.

Ég vil minna á að þegar mælt var fyrir náttúrurannsóknastöðinni á sínum tíma á Alþingi kom fram, bæði í málflutningi ráðherra og eins einstakra þingmanna, að þeir byggjust við því að umsvif náttúrurannsóknastöðvarinnar gætu orðið til framdráttar fyrir Mývatnssveit. Búist var við því að þar yrðu námskeið og annað fyrir ferðamenn og nemendur sem þangað vildu sækja. Menn sáu það jafnframt fyrir sér að náttúrurannsóknastöðin mundi beita sér fyrir hagnýtum rannsóknum sem mundu nýtast bændum og öðrum sem búa í Mývatnssveit. Á þetta hefur skort.

Mér er að vísu sagt að forstöðumaður rannsóknastöðvarinnar hafi flust þangað í síðasta eða þarsíðasta mánuði. Þá er svo komið í fyrsta skipti að útsvarstekjur fara að renna til Skútustaðahrepps frá starfsemi náttúrurannsóknastöðvarinnar og er það vel.