Úrbætur í málefnum fatlaðra

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:34:19 (7260)

2001-05-09 11:34:19# 126. lþ. 117.7 fundur 605. mál: #A úrbætur í málefnum fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:34]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. 4. júní 1996 var samþykkt á Alþingi þál. sem ég lagði fram haustið áður. Samkvæmt samþykkt Alþingis var félmrh. falið að skipa starfshóp sem kanna ætti möguleika fatlaðra í þjóðfélaginu til orlofs eða sumardvalar til að njóta tómstundaiðkunar til lista- og menningarlífs. Jafnframt var félmrh. falið að koma með tillögur til úrbóta þar sem þess væri þörf til að tryggja að jafnrétti ríkti í þjóðfélaginu hvað þessa þætti snertir.

Rúmum tveimur árum eftir að Alþingi samþykkti ályktunina, 24. september 1998, skipaði hæstv. félmrh. loks starfshópinn undir forustu Margrétar Margeirsdóttur, þáv. deildarstjóra í félmrn. En auk hennar voru í starfshópnum fulltrúar frá samtökum sveitarfélaga, skrifstofu málefna fatlaðra, Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp.

Í október 1999, ári síðar, skilaði starfshópurinn skýrslu til ráðherra. Skýrsla þessi er vel unnin og niðurstöður hennar ásamt tillögum til úrbóta taka til nánast allra þátta þjóðfélagsins. Af lestri hennar er ljóst að þrátt fyrir að mikil uppbygging hafi verið á félagslegri þjónustu fyrir fatlaða á síðustu tveimur áratugum, þá er víða pottur brotinn. Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög þurfa að standa mun betur að verki ef tryggja á möguleika fatlaðra til að njóta tómstunda, menningar og íþróttastarfs eða hafa möguleika til orlofsdvalar eða ferðalaga til jafns á við aðra.

Í skýrslunni er bent á fjölmörg atriði þar sem nauðsynlegra úrbóta er þörf, t.d. að skortur er á liðveislu fyrir þau börn og unglinga sem vilja taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, skortur er á liðveislu fyrir þá sem vilja dvelja í orlofshúsum, ferðast innan lands eða erlendis, að aðgengi að félags- og íþróttamiðstöðvum er víða ábótavant, almenningssamgangnakerfið þarf að bæta þannig að fatlaðir geti notið þess, möguleikar fatlaðra til að taka þátt í starfi kirkjunnar eru takmarkaðir. Aðgangur er víða slæmur, jafnvel útilokaður, á bókasöfnum, leikhúsum eða öðrum stöðum þar sem um listviðburði er að ræða. Möguleikar fatlaðra til listsköpunar eru ófullnægjandi.

Þetta eru aðeins fá þeirra verkefna sem talin eru upp í skýrslu starfshópsins þar sem gerðar eru tillögur til úrbóta.

Nú eru fyrirhugaðar verulegar breytingar á löggjöf er varðar fatlaða og þjónustu við þá auk þess sem fyrirhugað er að flytja þennan málaflokk alfarið til sveitarfélaganna. Af frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga verður ekki séð að tekið hafi verið tillit til margra þeirra athugasemda sem fram koma í skýrslunni og því hlýtur sú spurning að vakna hvort tekið hafi verið tillit til þessara niðurstaðna eða tillagna til úrbóta þegar viðræður fóru fram við sveitarfélögin um yfirtöku málaflokksins og þá hvort heildarkostnaður við þær úrbætur sem nauðsynlegt er að framkvæma liggur fyrir. Því spyr ég:

1. Hvað hefur verið gert til þess að framfylgja þeim fjölmörgu ábendingum og tillögum um úrbætur í málefnum fatlaðra sem fram koma í skýrslu starfshóps um menningar- og tómstundastörf fatlaðra sem unnin var á vegum félagsmálaráðuneytis og skilað í október 1999?

2. Voru niðurstöður starfshópsins og tillögur kynntar fulltrúum sveitarfélaganna vegna fyrirhugaðrar yfirtöku sveitarfélaga á þessum málaflokki?

3. Hver er áætlaður heildarkostnaður við þær úrbætur sem lagðar eru til í skýrslu starfshópsins? Var tekið tillit til þess kostnaðar við útreikninga á fjárþörf við fyrirhugaða yfirtöku sveitarfélaganna á málefnum fatlaðra? Ef ekki, hvernig hyggst ráðherra tryggja að tillögum starfshópsins verði fylgt eftir?