Ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:17:18 (7275)

2001-05-09 12:17:18# 126. lþ. 117.10 fundur 606. mál: #A ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:17]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að það getur verið þarft að fara yfir verkaskiptingu heilbrn. og félmrn. Eins og dæmin sanna varðandi þennan málaflokk eru þar óskýrar markalínur á milli í mörgum greinum. Þó að það standi sem ég sagði í fyrsta svari mínu, að félmrh. eigi að hafa frumkvæði í þessum málaflokki, þá er ekki langt á milli okkar hæstv. félmrh. Að sjálfsögðu munum við ræða það sem betur má fara í þessum efnum.

Ég get lýst því yfir hér að ég hef áhuga á að fara yfir þá málaflokka ráðuneytanna sem skarast og skoða hvað betur má fara í þeim efnum og hvar verkaskiptingin gæti verið skýrari. Ég hef í raun ekki meiru við það að bæta á þessu stigi en skírskota til svars míns við fyrirspurn hv. þm. í þessu efni.