Hátæknisjúkrahús

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:22:25 (7277)

2001-05-09 12:22:25# 126. lþ. 117.11 fundur 608. mál: #A hátæknisjúkrahús# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:22]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um byggingu hátæknisjúkrahúss. Fyrirspurnin er um hvort uppi séu áform um að byggja hátæknisjúkrahús hérlendis, hvort farið hafi fram athugun á því hvar slíkt sjúkrahús yrði reist ef af yrði, og hvort til greina kæmi að hafa það í landi Vífilsstaða.

Áætlanir um byggingu hátæknisjúkrahúss liggja ekki fyrir en uppbygging á slíkri stofnun er eðli málsins samkvæmt verkefni sem aldrei tekur enda. Forveri minn lýsti því yfir á fundi Læknafélagsins ekki alls fyrir löngu að það væri verðugt verkefni núverandi ríkisstjórnar að taka ákvörðun um að byggja nýjan spítala. Ég er sama sinnis. Hátæknispítali er hins vegar fyrst og fremst þjónusta sem þar er veitt en ekki byggingin sjálf.

Með sameiningu Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur í Landspítala -- háskólasjúkrahús var lagður hornsteinn að einu hátæknisjúkrahúsi á höfuðborgarsvæðinu. Sú mikla vinna sem farið hefur fram við sameiningu og samþættingu á þjónustu þessara tveggja stóru stofnana miðar að því að veita betri þjónustu á hagkvæman hátt. Sú vinna er í fullum gangi. Jafnframt henni er skyggnst til framtíðar í húsnæðismálum, hvort og þá hvar verði að bæta við húsnæði til skamms tíma en jafnframt hvort og þá hvar skuli koma þjónustu stofnunarinnar fyrir á einu svæði.

Nýr hátæknispítali sem byggður yrði frá grunni á einum stað er gríðarleg framkvæmd og kostnaðarsöm. Samkvæmt nýlegu mati danskra sérfræðinga telja þeir ekki þörf fyrir nýtt hús. Hins vegar er afar brýnt að móta stefnu til langs tíma í því hvernig byggt verður upp á landspítalalóðinni eða í Fossvoginum. Það var raunar eitt af því fyrsta sem ég ræddi um við forstjóra og stjórnarformann Landspítala -- háskólasjúkrahúss þegar ég tók við embætti heilbrrh. Það er skynsamlegt að skoða allar leiðir í þeirri stöðu, eins og nú er gert á vettvangi stjórnar Landspítala -- háskólasjúkrahúss, og velta fyrir sér þeim kostum sem blasa við. Fyrir liggja úttektir og álit en ég hyggst setja niður vinnuhóp ráðuneytis og sjúkrahússins til að fara yfir kostina.

Virðulegi forseti. Við skulum ekki gleyma því í þessari umræðu að jafnframt sameiningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu hefur starfsemi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri verið styrkt markvisst á umliðnum árum með það að markmiði að þar sé rekin hátækniþjónusta á afmörkuðum sviðum og þjóni einkum Norður- og Austurlandi. Með ákvörðun um Akureyri sem miðstöð sjúkraflugs á landsbyggðinni, opnun nýrrar barnadeildar, uppbyggingu og aðstoð á kaupum á tækjum hefur Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri verið eflt til að sinna betur landsbyggðinni.

Önnur sjúkrahús á landsbyggðinni hafa einnig aukið starfsemi sína á afmörkuðum sviðum til hagsbóta fyrir íbúa viðkomandi svæða og landið í heild.

Virðulegi forseti. Þar sem fyrirspurn hv. þm. fjallar aðallega um höfuðborgarsvæðið, um framtíðaruppbyggingu og skipulag þeirrar heilbrigðisþjónustu sem nú og í framtíðinni verður veitt á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi, vil ég leggja áherslu á að það er ekki staðsetningin eða húsið sem skiptir mestu þegar við ræðum um hátæknisjúkrahús. Þar skiptir mestu þjónustan sem veitt er og sá staðfasti vilji okkar að veita hérlendis þjónustu sem er sambærileg þeirri sem veitt er hjá þeim þjóðum sem við miðum okkur við. Hvort það verður gert í einu húsi eða fleirum ræðst af því sem hagkvæmast er fyrir veikt fólk.