Efnahagsmál og gengisþróun krónunnar

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 13:30:51 (7291)

2001-05-09 13:30:51# 126. lþ. 118.94 fundur 517#B efnahagsmál og gengisþróun krónunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[13:30]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég hygg að mörgum muni hafa þótt nokkuð bratt farið þegar ríkisstjórnin ákvað á sama deginum, 29. mars sl., að fella burt vikmörk krónunnar, taka upp verðbólgumarkmið við stýringu peningamála, lækka vexti og afhenda Seðlabankanum frelsi til að stýra peningamálum innan gefinna markmiða sem ríkisstjórnin ákvað.

Krónan hefur verið á lækkunarferli í tæpt ár og hefur misst 10--15% af verðgildi sínu frá því verðbólgumarkmiðið var tekið upp. Á undanförnum 12 mánuðum hefur gengi krónunnar lækkað um 20--30%. Ef gengislækkun síðustu viku gengur ekki öll til baka er nær öruggt að verðbólga fari yfir það 6% hámark sem ríkisstjórnin hefur sett fyrir verðbólgumarkmið á þessu ári, sé tekið mið af spá Seðlabankans frá 26. apríl sl.

Nú er það svo að Seðlabankinn hefur aðeins haft sjálfstæði í um tvo mánuði. Núverandi ástand er að mestu leyti hægt að rekja til þess er gerðist þegar bankinn laut beinni stjórn frá forsrn. Seðlabankinn hefur fá stjórntæki til ráðstöfunar til að halda niðri verðbólgu fyrir utan vaxtahækkanir og sölu á gjaldeyri. Þessum stjórntækjum hefur verið beitt til hins ýtrasta á síðustu missirum. Vextir hér eru mjög háir og geta vart hækkað án þess að skapa hættu á fjármálakreppu og gjaldþrotum. Krafan er um að þeir lækki.

Því er spurt: Til hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til að halda verðbólgu innan þeirra marka sem stjórnvöld hafa sjálf sett? Hærri verðbólga rýrir ekki aðeins kaupmátt almennings heldur hækka skuldir heimilanna sem eru flestar verðtryggðar. Verðhækkanir ráðast ekki aðeins af þeirri peningamálstefnu sem Seðlabankinn fylgir heldur skipta aðgerðir ríkisvaldsins miklu máli. Það er þekkt staðreynd að erfitt er að ná verðbólgunni niður ef hún nær sér á strik. Í sjálfu sér er lofsvert að hvetja þjóðina með bjartsýni og góðum væntingum en þar þarf líka að stilla í hóf og halda sig nærri raunveruleikanum.

Viðskiptahallinn hefur verið geigvænlegur síðustu ár. Hann var 44 milljarðar árið 1999 en um 70 milljarðar árið 2000, eða um 10% af þjóðarframleiðslu. Hallinn er liðlega þrefalt meiri en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga þess árs. Uppsafnaður viðskiptahalli síðustu 3--4 ára nemur um 160 milljörðum kr., þ.e. nálægt fjórðungi af landsframleiðslu, og gengistap síðasta árs vegna þeirra erlendu skulda sem teknar voru til að fjármagna hann nemur um 50 milljörðum kr. Þessi halli hefur sett mikinn þrýsting á krónuna og er því stór áhrifavaldur þeirra verðhækkana sem nú eru að koma fram. Langvarandi viðskiptahalli, fjármagnaður með erlendum lánum þýðir einnig að umsvif þjónustu og verslunar vaxa langt umfram það sem aukning í þjóðarframleiðslu og útflutningstekjum gefur tilefni til. Þetta hefur einkum átt sér stað á suðvesturhorninu.

Það breytir litlu fyrir stöðu þjóðarbúsins í heild hvort það er ríkissjóður, einstaklingar eða fyrirtæki sem hafa stofnað til þessara erlendu skulda og bera ábyrgð á viðskiptahallanum. Íslenskar fjármálastofnanir, íslensk fyrirtæki, íslensk heimili og íslenskt atvinnulíf er í ábyrgð þegar kemur að skuldadögunum, enda verðum við rækilega vör við það þessa dagana.

Tímabundnar erlendar lántökur og skuldsetning er réttlætanleg þegar átak er gert til að byggja upp og treysta grunnstoðir þjóðfélagsins, svo sem hækka almennt menntunarstig, styrkja almannaþjónustu og önnur stoðkerfi atvinnulífsins. En sá viðskiptahalli er hættulegur sem stafar af aukinni neyslu eða óráðsíu, fjárfestingum í falskri atvinnuuppbyggingu eða leiðir til mikilla búferlaflutninga og þjóðfélagsumróts. Stefna stjórnvalda í peningamálum, atvinnumálum, byggðamálum og velferðarmálum hefur búið þann farveg sem við föllum nú eftir.

Herra forseti. Um helmingur útflutningstekna okkar koma frá sjávarútvegi. Eitt af loforðum beggja ríkisstjórnarflokkanna fyrir kosningar var endurskoðun stefnunnar í fiskveiðimálum. Friður og sátt, verndun og sjálfbær nýting sjávarfangs er ein af forsendum hagsældar og búsetu þjóðarinnar í landinu öllu. Hvað líður þessari endurskoðun sem lofað var? Á þessum vettvangi ríkir engin sátt og langvinnar kjaradeilur skaða nú hagi allra landsmanna. Samningur við vélstjóra í nótt er þó ljóstýra.

Herra forseti. Það er dapurlegt til að vita að lausatök ríkisstjórnarinnar í peningamálum og rangar áherslur í efnahags- og atvinnumálum verði vatn á myllu þeirra sem vilja selja fullveldi þjóðarinnar og sjá Ísland sem allra fyrst sem eitt af löndum Evrópusambandsins. Fjármögnun daglegs lífs með erlendum lántökum við núverandi aðstæður brenglar allt gildismat þjóðarinnar og leiðir hana á fullkomnar villigötur. Að óbreyttu er hættan sú að hér þróist hagkerfi efnahags- og atvinnulífs sem verður háð viðskiptahallanum og ræður illa við að snúa af þeirri braut.

Herra forseti. Er aðgerða að vænta af hálfu ríkisstjórnarinnar sem muni rétta af þessa stefnu þjóðarskútunnar?