Efnahagsmál og gengisþróun krónunnar

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 13:46:13 (7295)

2001-05-09 13:46:13# 126. lþ. 118.94 fundur 517#B efnahagsmál og gengisþróun krónunnar# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hvað ætli hafi orðið af hinni fjálgu umræðu um stöðugleikann sem uppi var höfð fyrir síðustu kosningar og stjórnarflokkarnir háðu kosningabaráttu sína á, ásamt með sáttum í fiskveiðistjórnarmálum? Hvað ætli hafi orðið um þessi loforð eða skattabreytingar o.s.frv.?

Það er eðlilegt að hæstv. forsrh. sé órótt nú þegar þeir hafa misst tökin á gengismálum t.d. Þeir hafa ekki gert tilraun til þess að ná tökum á hinum ógnarlega viðskiptahalla. Hvert er vopnið sem ríkisstjórn í landi hefur til þess aðallega að berjast gegn slíkum vágesti? Vopnið sem ríkisstjórn hefur er fjárlög.

Ár eftir ár hefur verið á það bent að beita þurfi fjárlögum gegn þenslunni í þjóðfélaginu, ár eftir ár. En allt hefur komið fyrir ekki. Því hefur ekki verið ansað. Fjárlög síðast hækkuðu um á milli 13 og 14%, meðan verðbólgan var þó ekki nema innan við 5%. Það er haldið áfram að kynda þenslubálið með öllum hætti eins og menn sjá af þessu.

Hvers vegna skyldi ríkisstjórnin undir þessari glæsilegu aðferð hafa ákveðið að lækka gengið? Hún réð ekkert lengur við það. Hvers vegna ekki? Hvernig er komið fyrir sjávarútveginum, aðalútflutningsatvinnuvegi okkar? Nærri öll fyrirtæki gera upp með stórkostlegu tapi þrátt fyrir hið fræga og glæsilega fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við.

Staðreyndin er sú að það er hrollvekja fram undan, því miður, í íslensku peninga- og fjármálalífi og það er orðið of seint að bregðast við af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Hrollvekja blasir við með haustinu.