Efnahagsmál og gengisþróun krónunnar

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 14:04:19 (7303)

2001-05-09 14:04:19# 126. lþ. 118.94 fundur 517#B efnahagsmál og gengisþróun krónunnar# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þetta hefur verið góð og fróðleg umræða. Neró var meiri hæfileikamaður en ég hélt fyrst hann gat leikið á hljóðfæri sem var fundið upp 1500 árum eftir dauða hans en þeim karli voru víst allir vegir færir.

Það er líka ánægjulegt að menn skuli hér í alvöru ræða um að stöðugleikinn sé horfinn ef verðbólgan fari úr 3% í 5%. Óskaplega held ég að þeim sem voru á undan okkur í þessum sal fyrir 10 til 15 árum finnist það merkileg umræða að það sé stöðugleiki að verðbólgan sé 3%, en að allt sé farið fjandans til ef hún sé 5%.

Það eru gleðileg umskipti sem orðið hafa í efnahagsmálum landsins og ég skal gjarnan taka hluta af því til mín, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, eins og ég vil gjarnan áfram taka til mín hluta af þeim þætti sem ég kann að eiga í því að efnahagsmál á Íslandi standa afar sterkt.

Nú er svo komið að samið hefur verið í einum þætti í verkfalli sjómanna. Það gefur von til þess að því verkfalli fari að linna, sem betur fer, ekki vonum fyrr, og að sá þátturinn fari að skapa auð inn í íslenskt atvinnulíf sem við þurfum svo mjög á að halda.

Formaður Samfylkingarinnar, hv. þm., fann að því að ég væri að fara yfir fortíð hans. Ég var ekki að fara í þá fortíð sem við hefðum getað farið í, við hlífum honum við því öllu saman. Þetta var ekki nema vika. Það hlýtur að vera óhætt að ræða um viku fortíð þó maður sleppi þessu á Þjóðviljanum og því öllu saman í gamla daga. En viku fortíð hlýtur maður að mega ræða eða a.m.k. það sem var sagt í þætti á sunnudaginn var. (Gripið fram í.) Sunnudagurinn var, er það kannski líka handan við mörkin að nefna það sem sagt var þá? Það gæti tekið margar fjólur frá hv. þm. Best að sleppa honum við það fyrst honum finnst það miður.

En þetta er þannig núna að gengislækkun um 6% hefur gengið öll til baka eins og er. En ég tek undir með öðrum hv. þm. sem segja: Við skulum búast við einhverju flökti í krónunni eins og staðan er. Ég geri þó ráð fyrir að krónan eigi frekar eftir að styrkjast en hitt þegar fara að berast hinar jákvæðari fréttir.

Við skulum gæta okkar á því að fara ekki í neinn vandræðagang eins og gerðist til að mynda með eitt olíufélagið sem hækkaði verð á olíu á þriggja daga fresti þó við vitum að þegar olían lækkar tekur einn og hálfan mánuð að fá slíka olíu lækkaða hér.