Nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 14:02:49 (7373)

2001-05-10 14:02:49# 126. lþ. 119.95 fundur 524#B nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það má kannski velta fyrir sér, eftir þessar umræður og þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á hugmyndir mínar, að það sé engin furða að ýmsir vísindamenn velti fyrir sér hvort skynsamlegt sé að hafa meiri stjórnmálaítök í þessu starfi en nú eru. Ómálaefnalegri rök og ómálefnalegri málflutning en þann sem hér hefur komið fram hef ég sjaldan heyrt. Það að leggja að jöfnu þá breytingu sem ég legg til hér við gamalt rannsóknarráð sem starfaði samkvæmt allt öðrum aðferðum en við erum að tala um hérna sýnir að hv. þingmenn hafa ekki einu sinni kynnt sér þetta mál áður en þeir taka þátt í þessari umræðu.

Annars vegar er hér um að ræða stefnumótandi aðila sem nær saman meginþráðum á þessu mikilvæga sviði og hins vegar stjórnarnefndina, sem hægt er að bera saman við akademíuna í Finnlandi, sem menn telja að sé til fyrirmyndar.

Málflutningur hv. þm. ber allur vott um að þingmenn hafi ekki lagt sig fram um að kynna sér málið eða borið saman við það sem best hefur verið talið vænlegt í öðrum löndum til að ná þeim árangri sem að er stefnt.

Ég hef oft haft orð á því að ræður hv. þm. Jóns Bjarnasonar séu þær einkennilegustu hér í þingsalnum og það sannaðist hér enn. Þetta er grafalvarlegt mál sem hér er til umræðu. Með því að gera það að gamanmáli eins og hv. þm. gerði er þessum málstað öllum sýnd mikil óvirðing. Hér er verið að leggja á ráðin um hvernig eigi að styrkja forsendur fyrir rannsóknum og þróun í þjóðfélaginu, sem hafa stuðlað að eflingu hagvaxtar og styrkt innviði þjóðfélagsins á undanförnum árum. Þessar hugmyndir hafa almennt hlotið góðar viðtökur í vísindasamfélaginu en þar hef ég sótt fundi og rætt um þetta mál. Með þeim skipum við þessari starfsemi þann sess sem henni ber í þjóðfélaginu.

Ef menn líta á tillögur frá OECD um hvernig eigi að þróa vísindasamfélag á Íslandi þá er þetta ein af megintillögunum sem þar er lögð fram til, að Íslendingar standi sig enn betur á þessu sviði. Ég vona að þingmenn bregði ekki fæti fyrir það þegar frv. um málið kemur hér fyrir þingið, vonandi næsta haust.