Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 14:19:52 (7377)

2001-05-10 14:19:52# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[14:19]

Sverrir Hermannsson (andsvar):

Herra forseti. Það er raunar fágætt að hlusta á þvílíkt rugl eins og hv. þm. Pétur Blöndal hafði hér uppi. Að ráðherra sé allt óviðkomandi um málsmeðferð þýðingarmestu mála eftir að hann hefur skilað af sér framsögu í 1. umferð málsins er ótrúleg skoðun. Að sjálfsögðu eiga ráðherrar að vakta svo þýðingarmikil mál og vera viðbúnir til andsvara meðan á umræðum stendur. Og þingmenn eiga reyndar kröfu á því.

Um einkavinafjöldann sem hv. þm. talaði um, þá vil ég spyrja í móti þar sem upp er komin þessi einlæga ósk um erlenda aðild, kaup erlendra aðila að bönkunum og Landssímanum: Á hann von á því að fjöldi smárra einstaklinga drífi að frá útlöndum til þess að kaupa sér hluti? Smáhlutur var seldur og að vísu tókst að beina því aðeins inn á starfsmenn bankans, en eins og nú standa sakir hefur almenningur engin tök á því að ná því sem nokkru máli skiptir af eignaraðild að þessum fyrirtækjum. Það er því miður og þess vegna er það líka vandasamt verk ef á að gæta dreifðrar eignaraðildar að hefja nú atlögu að sölu fyrirtækjanna.