Landhelgisgæsla Íslands

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 11:17:53 (7491)

2001-05-11 11:17:53# 126. lþ. 120.21 fundur 673. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (smíði varðskips) frv. 64/2001, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[11:17]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Örstutt út af orðum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Varðandi meðferð málsins í hv. allshn. þá er alveg ljóst að samstaða var um það í nefndinni að fara þá leið sem var valin hér og nefndarmönnum þótti ekki ástæða til þess að leita til annarra en síðan var leitað til, þar á meðal hv. fulltrúum Samfylkingarinnar.

Það er svo allt annað mál að mínu mati hvernig hægt er að efla og styrkja skipaiðnaðinn í landinu. Ég vil þó taka undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gat um áðan, að þegar við undirgöngumst alþjóðlega samninga þá fylgja þeim líka ákveðnar skyldur. Þar á meðal er þetta sem hefur komið fram, að við þurfum að fara þá leið sem nú er verið að fara.

En út af öðrum orðum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar í tengslum við opinbera starfsmenn þá fannst mér hann vera að draga fram einhverjar annarlegar hvatir hjá opinberum starfsmönnum við að fara þessa leið. Aðrir í salnum ættu kannski að verja opinbera starfsmenn hvað þetta varðar en mér finnst fulllangt gengið að ýja að því að opinberir starfsmenn hafi tekið þessu eða hinu tilboðinu út af því að dagpeningar voru með í spilinu. Mér finnst það fullankannalegt.