Landhelgisgæsla Íslands

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 11:35:46 (7497)

2001-05-11 11:35:46# 126. lþ. 120.21 fundur 673. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (smíði varðskips) frv. 64/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[11:35]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það sem á við á einum stað kann ekki að eiga við á öðrum stað. Þetta eru ein sannindi sem ég vildi leggja áherslu á.

Ég tek alveg undir það að ein og mjög jákvæð hlið er á þessum Evrópusamruna þ.e. að hann hefur gert Evrópu friðvænlegri og ég skil þau sjónarmið sem þar eru uppi. Hins vegar er annað og meira að gerast núna vegna þess að svo hefur verið að þegar tiltölulega einsleitar þjóðir koma saman og mynda samkomulag sín í milli, eins og gerst hefur í Evrópu, með auknum samruna í átt til stórríkis, vil ég meina, þá eru þjóðirnar að undirgangast skilmála á borð við þá að afsala sér valdi til að taka lán á vegum ríkissjóðanna, afsala sér valdi gagnvart verðlagsþróun og vaxtastefnu og fela hinum nýja seðlabanka Evrópu refsivald gagnvart sjálfum sér, fari þær út af línunni. Og hverjar eru þær þjóðir sem eru líklegastar til að standast ekki þessar skuldbindingar þegar fram líða stundir, þegar gefur á í efnahagslífinu? Það eru hinar fátækari þjóðir sem eru nú að koma inn í Evrópusambandið.

Þegar hinn evrópski seðlabanki fer að beita refsivendinum gagnvart þessum þjóðum þá vil ég spyrja hv. þm.: Telur hann þetta líklegt til að stuðla að hinum háleitu markmiðum um aukinn frið og góð og friðsamleg samskipti þjóða? Ég held ekki. Og þetta eru veikleikar Evrópusambandsins, þ.e. að það byggir fyrst og fremst og í allt of ríkum mæli á kaldri markaðshyggjunni.