Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 11:54:13 (7503)

2001-05-11 11:54:13# 126. lþ. 120.22 fundur 19. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[11:54]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil lýsa eindregnum stuðningi við þetta þingmál. Hér er um að ræða þáltill. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var 1. flm. að en auk hennar komu að málinu eða voru flutningsmenn þingmenn úr öllum flokkum hér á Alþingi og var ég einn flutningsmanna þáltill.

Þáltill. gengur út á að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa heildstæða og samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga. Markmið stefnumótunarinnar verði að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðlífsins og búa þeim sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska.

Í greinargerð sem fylgdi tillögunni er vitnað í ýmsar alþjóðlegar skýrslur, norrænar skýrslur og skýrslur sem unnar eru á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur m.a. fram að opinbert framlag, stuðningur til uppeldismála og mála sem tengjast börnum og uppeldisskilyrðum þeirra, er rýrari hér á landi en annars staðar. Hvers virði nefndarstarf á sviði sem þessu er er náttúrlega erfitt að gera sér fulla grein fyrir en ég tel mjög brýnt að varpa kastljósinu á þennan málaflokk með það fyrir augum að bæta stöðu barna.

Ég þakka allsherjarnefndarmönnum, hv. þingmönnum og sérstaklega formanni nefndarinnar, hv. þm. Þorgerði Gunnarsdóttur, fyrir að samfylkja um þetta brýna hagsmunamál fyrir íslensk börn.