Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 13:36:19 (7523)

2001-05-11 13:36:19# 126. lþ. 120.1 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[13:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að þessi grein felur það í sér að bankarnir verði einkavæddir. Þótt Samfylkingin vilji fara aðrar leiðir en ríkisstjórnin og vissulega hyggilegri að mínum dómi þá erum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði því algerlega andvíg að svipta almenning, Íslendinga, þessum eignum sínum eins og hér er lagt til. Einkavæðingin felur í sér þrengingu á eignarhaldi. Mér finnst þessi hugmynd sem áður hefur verið hreyft bæði af hv. þm. Pétri H. Blöndal og Boris Jeltsín Rússlandsforseta, um að láta hvert mannsbarn fá hlutabréf til eignar í almenningsstofnunum sem eru einkavæddar, ekki vera fýsilegar. Þær reyndust illa í Rússlandi. Við leggjum áherslu á að sú leið verði farin að þessir væntanlegu hlutabréfaeigendur fá einfaldlega að halda hlut sínum óskertum og í sameiningu. Það hefur gefið ágæta raun.