Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 14:58:57 (7542)

2001-05-11 14:58:57# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að ég býst við að tala síðar í umræðunni þá ætla ég ekki að taka stór atriði fyrir í fyrstu atrennu við hv. þm. En eitt er víst að hann er snillingur sjónhverfinganna og útúrsnúninganna og hefur látið sitt lið ganga mjög hart að mér í fjölmiðlum við að reyna að segja þjóðinni að ég sé á móti grænmeti, ítrekar þá skoðun að ég hafi sagt að ég hafi komist sæmilega til manns án þess að hafa borðað mikið grænmeti á æskuárum. Þarna er útúrsnúningi hv. þm. rétt lýst.

Í sjónvarpsþætti þar sem ég sat fyrir svörum kom sú spurning upp hvers vegna það væri að Íslendingar borðuðu minna grænmeti en aðrar Norðurlandaþjóðir. Þá veltu menn vöngum og spekúleruðu hvers vegna svo væri. Þá datt þeim sem hér stendur það í hug að það væri nú svo, sem það er, að jafnvel fram undir 1960--1970 voru margar mikilvægar tegundir af grænmeti ekki algengar á borðum Íslendinga þannig að við sem erum fædd fyrir miðja síðustu öld, ef svo má segja, vorum ekki mjög mikið með grænmeti á borðum. Þetta getur skapað neysluvenjur sem hafa síðan staðið með þessum hætti og verið skýring á því að það fólk á Íslandi sem er fimmtugt og eldra vandist ekki þessari neyslu í æsku. Nú er þetta allt öðruvísi. Börn á Íslandi byrja að borða grænmeti ung. Ég býst við að í fyllingu tímans þegar sú kynslóð sem nú er komin yfir miðjan aldur verður gengin verðum við komin í sömu stöðu og hinar þjóðirnar. Ég vek athygli á því að þetta sagði ég í sjónvarpsþætti en þetta hefur hv. þm. fjasað um og flumbrað með í fjölmiðlum til þess að reyna að snúa út úr málflutningi mínum. En það var þetta sem ég sagði, hv. þm., og vil leiðrétta. Hér er verið að ganga þá leið sem hv. þm. bað um, að sem fyrst yrði farið að tillögum grænmetisnefndar og hér er auðvitað verið að fella niður tolla af einum 30 tegundum, sumar þeirra snerta íslenska framleiðslu en megnið af þeim ekki. Við erum því að bregðast við þeim tillögum.