Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 15:33:40 (7551)

2001-05-11 15:33:40# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Mig langar að segja nokkur orð við 1. umr. um frv. til laga um breyting á tollalögum sem hæstv. fjmrh. leggur fram en hæstv. landbrh. fer með málaflokkinn og hefur gert til margra ára. Það hefur orðið nokkur umræða um hvort það sé eðlilegt fyrirkomulag. Hugsanlega verður það athugað í framhaldi af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og ég ætla í sjálfu sér ekki að gera neinar athugasemdir við það.

Við fjöllum hér um að lækkaðir verði tollar á innfluttu grænmeti og ávöxtum, lifandi eða afskornum blómum og plöntum og mismunandi verðlagningu, þ.e. að ekki fari endilega saman lækkun á verði, verðstýring, og magntollar. Þetta er af hinu góða. Ég tel að samkvæmt skuldbindingum GATT-samningsins verðum við að flytja inn ákveðið magn af landbúnaðarvörum sem eru tilgreindar samkvæmt tollnúmerum.

Við erum að fjalla um vöruflokka sem ekki eru framleiddir hér á landi en frá því að þessi samningur var gerður hefðum við smám saman átt að lækka þessa tolla. Við höfum ekki unnið að því eins og til stóð í upphafi en ég vil gera greinarmun á tollum á grænmeti, ávexti og blóm sem ekki eru ræktuð hér á landi og vörum sem eru ræktaðar hér á landi. Ef við viljum að hér verði áfram blómleg atvinnustarfsemi garðyrkjubænda, hvort heldur þeir framleiða garðávexti eða eru með framleiðslu í gróðurhúsum, verðum við að standa þannig að að þeir séu a.m.k. samkeppnishæfir við bændur innan Evrópusambandsins og annars staðar í heiminum. Víðast hvar fá bændur einhvers konar framleiðslustyrki með mismunandi móti.

Hér hefur töluvert verið talað um að koma eigi til móts við þá sem sem rækta í gróðurhúsum með því að selja þeim rafmagn á lægra verði en þeir fá í dag. Undir það tek ég. Það er mikilvægt að þeir fái raforku á stóriðjutaxta. Þetta getur orðið stóriðja. En ekki rækta allir bændur grænmeti í gróðurhúsum. Kartöflubændur og ýmsir garðyrkjubændur rækta ekki í gróðurhúsum. Þeirra staða yrði mjög veik fengju þeir ekki einhvers konar stuðning, beina styrki eða framleiðslustyrki, ef láta ætti undan þeirri kröfu að allir tollar af ávöxtum og grænmeti yrðu felldir niður. Ég er hrædd um, herra forseti, að þá mundum við missa marga bændur úr þessari framleiðslu og ekki njóta afurða þeirra sem yfirleitt er gæðavara.

Við höfum hér á landi ákveðna manneldisstefnu. Við eigum að hvetja til þess að fólk borði meira af grænmeti og ávöxtum. Að því verðum við að stefna. Verð á ýmsum grænmetistegundum hefur verið --- það er í raun ástæða þess að við tökum þetta frv. til afgreiðslu --- óheyrilega hátt, sérstaklega papriku. Í umræðunni hefur þetta verið kallað paprikustríð og Samkeppnisstofnun var falið að skoða verðmyndunina. Verðmyndun á innfluttu grænmeti samanstendur af tollum, heildsöluálagningu og smásöluálagningu.

Ég er þakklát fyrir vinnu Samkeppnisstofnunar og svokallaðrar grænmetisnefndar því að í ljós hefur komið að bændur hafa ekki fengið þær hækkanir á grænmeti sem neytendur hafa orðið að greiða. Þeir hafa varla haldið í við verðhækkanir. Álagningin hefur verið hjá heildsölunni og smásölunni fyrir utan það að tollar hafa ekki lækkað á innfluttri vöru eins og þeir áttu að gera. Ég bíð þess vegna eftir að fá endanlega niðurstöðu grænmetisnefndarinnar og tillögur hennar. Þetta frv. er spor í rétta átt en við þurfum að sjá heildarmyndina, þ.e. hvernig við getum uppfyllt manneldisstefnu okkar en jafnframt styrkt íslenska bændur til að framleiða áfram grænmeti og blóm án þess að veikja stöðu þeirra. Við þurfum að sjá þetta í heild. Íslenskir bændur verða að sitja við sama borð og aðrir.

Varðandi verðmyndunina má nefna verð á grænmeti og ávöxtum úti á landsbyggðinni. Til viðbótar álagningu heildsala og smásala leggst þar á mikill flutningskostnaður. Það finnum við þegar við kaupum sambærilega vöru úti í hinum dreifðu byggðum. Þar er enn hærra verðlag en hér á höfuðborgarsvæðinu. Við skulum skoða það samhliða líka.

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að tefja þetta mál frekar. Þetta er lítið spor í rétta átt og ég vona að það fái góðar undirtektir á þessu þingi.