Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 16:16:23 (7561)

2001-05-11 16:16:23# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[16:16]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég valdi að fara í andsvar við hæstv. landbrh. í staðinn fyrir að bera af mér sakir því að eftir því sem ég skildi hæstv. ráðherra var hann að tala um 12 þús. kr. árslaun í Kína og sagði að það væri staða sem ég yrði ekki óhress með.

Mannkynið býr við afskaplega mismunandi lífskjör. Ég er engan veginn ánægður með að fólk sé með 12 þús. kr. árslaun í Kína. Hins vegar getur verið betra fyrir fólk í Kína að hafa 12 þús. kr. árslaun en hafa engin laun og vera atvinnulaust eins og það var hér áður.

Ég vil benda hæstv. landbrh. á að fötin sem hann gengur í eru mjög sennilega ofin og saumuð í Kína eða öðru láglaunasvæði í heiminum. Öll föt okkar og mikið af þeim neysluvörum sem við notum eru einmitt búin til og framleidd af fólki með fáránlega lág laun. Þannig nýtum við þessi lágu laun og það er hluti af velsæld okkar á Íslandi að nýta lágu launin þannig.

Hins vegar er það, eins og ég gat um, alls ekki til hagsbóta fyrir þetta fólk í þessum vanþróuðu löndum að hafa enga vinnu. Ég hygg því að þessi vinna sé til bóta og þegar fram líða stundir muni eftirspurnin eftir vinnuafli á þessum stöðum, nákvæmlega eins og gerðist í Japan, leiða til þess að þessi laun muni hækka. En þá þurfum við líka og þar með talinn hæstv. landbrh. að borga fötin okkar fullu verði. (Gripið fram í: ... vefa þau sjálfur.)