Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 17:04:53 (7574)

2001-05-11 17:04:53# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[17:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði í raun hvort ég væri til í að flytja Ísland eitthvað suður á bóginn, breyta aðstæðum þannig að hér væri sól og íslenskir bændur gætu keppt við grænmeti sem ræktað er undir sól við meiri hita. Þetta gengur að sjálfsögðu ekki og þetta er fáránlegt. Það er fáránlegt að hafa það sem markmið að keppa við vöru sem framleidd er við allt önnur skilyrði.

Við Íslendingar eigum að gera það sem við getum gert vel og ekkert annað. Við eigum ekki að stefna að því að framleiða eitthvað sem ekki er hagkvæmt að framleiða hér af því að það er ódýrara að gera það erlendis. En hins vegar skulum við skoða mjög vel erlendar niðurgreiðslur. Ég er alveg sammála því að við þurfum að bregðast við því og veita tollvernd eða niðurgreiða vörur innan lands í samræmi við það sem gerist erlendis. En innlendar niðurgreiðslur eru miklu meiri en gengur og gerist víða um heim ef við tökum beingreiðslur til bænda inn í dæmið.