Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 17:28:32 (7581)

2001-05-11 17:28:32# 126. lþ. 120.48 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[17:28]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, og lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, með síðari breytingum.

Eins og þingheimur veit snýst þetta frv. um að bæta kjör þeirra sem minnstar tekjur hafa í samfélaginu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var ákveðið að endurskoða almannatryggingakerfið og lögð sérstök áhersla á að bæta kjör þeirra sem hafa lægstar tekjur. Til að undirbúa það var skipuð nefnd árið 1999 sem var fyrirskipað að hraða störfum sínum í janúar sl. í tengslum við afgreiðslu laga til að bregðast við dómi Hæstaréttar í svokölluðu öryrkjamáli.

Nefndin hefur skilað áliti og er frv. þetta nú flutt á vorþingi til þess að unnt verði að koma kjarabótum til hinna verst stöddu í hópi aldraðra og öryrkja sem fyrst.

Efnisatriðum þeirra breytinga sem um ræðir í frv. má skipta í eftirfarandi meginþætti:

1. Bæta kjör þeirra sem verst eru settir.

2. Jafna kjör hjóna og einhleypra lífeyrisþega.

3. Draga úr áhrifum atvinnutekna öryrkja á bætur þeirra og hvetja þá til atvinnuþátttöku eftir aðstæðum og efnum.

Munur á bótarétti einstaklinga annars vegar og hjóna og sambýlisfólks hins vegar í núverandi kerfi er að mínu mati of mikill. Því hefur verið haldið fram að það hvetji til að búa einn og auki á einangrun. Bætur tveggja einstaklinga sem hafa viljað halda heimili saman lækka í núverandi kerfi svo mikið við slíka heimilisstofnun að sumir hverfa frá. Nú er þess freistað að koma í veg fyrir þessi áhrif.

[17:30]

Það hefur lengi verið baráttumál öryrkja að draga úr tengingu bóta við atvinnutekjur. Með þessum tillögum breytist skerðingarhlutfall bóta vegna atvinnutekna öryrkja að því er varðar tekjutryggingu og heimilisuppbót úr 45% í 27%. Með þessu eru bættir möguleikar öryrkja til að auka tekjur sínar með því að vinna. Þetta er einnig hugsað til að draga úr einangrun öryrkja sem ekki hafa farið út á vinnumarkaðinn en hafa getu til að stunda vinnu í einhverjum mæli.

Virðulegi forseti. Einstök efnisatriði frv. eru sem hér segir:

Í 1. gr. frv. er 10. gr. laga um almannatryggingar breytt þannig að tekjur öryrkja af atvinnu eru metnar af 60% við útreikning af tekjutryggingu í stað 100% samkvæmt núgildandi lögum. Með þessari breytingu hækka bætur til öryrkja sem hafa tekjur af atvinnu mjög verulega. Þá er þeim öryrkjum sem geta unnið ívilnað sérstaklega vegna aukinna tekna af atvinnu. Er það í samræmi við áherslur samtaka öryrkja á undanförnum árum.

Vert er að vekja sérstaka athygli á því að hér er um grundvallarstefnubreytingu að ræða sem helgast auðvitað af því að öryrkjar eru á vinnualdri. Einhverjir eru að koma sér upp heimili og sjá fyrir börnum. Fólk á þessum aldri á almennt þess kost að auka tekjur sínar með aukinni vinnu en með þessum breytingum njóta öryrkjar betur þeirra möguleika sem felast í auknum tekjumöguleikum með aukinni vinnu eftir getu og aðstæðum hvers og eins.

Í 2. gr. frv. er hluti af 3. mgr. 11. gr. laga um almannatryggingar felldur brott. Í mgr. er kveðið á að grunnlífeyrir hjóna sem bæði eru lífeyrisþegar nemi 90% af grunnlífeyri einhleypings. Frv. gerir ráð fyrir að grunnlífeyrir hjóna hækki úr 90% af grunnlífeyri í 100%.

Sá hluti 3. mgr. sem fjallar um búsetuskilyrði er óbreyttur en hann er fluttur í 1. mgr. 11. gr. laganna. Í 3. gr. frv. er tveimur nýjum málsgreinum sem fjalla um tekjutryggingarauka bætt við 17. gr. laga um almannatryggingar. Tekjutryggingarauki er nýr bótaflokkur í almannatryggingum og kemur í stað sérstakrar heimilisuppbótar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í samræmi við þessa breytingu eru ákvæði um sérstaka heimilisuppbót felld brott úr lögum um félagslega aðstoð. Þar að auki er ekki lengur gert ráð fyrir því að um heimildarbætur sé að ræða, þ.e. bætur sem byggjast á mati á aðstæðum viðkomandi einstaklings hverju sinni heldur sé um að ræða skyldu til að greiða tekjutryggingarauka að uppfylltum lögbundnum skilyrðum.

Samkvæmt frv. eiga allir lífeyrisþegar, jafnt ellilífeyrisþegar sem örorkulífeyrisþegar, rétt á tekjutryggingarauka óháð hjúskaparstöðu og heimilisaðstæðum öðrum. Þá er dregið verulega úr skerðingu tekjutryggingarauka vegna tekna frá því sem nú gildir um sérstaka heimilisuppbót þannig að einungis 67% tekna koma til skerðingar tekjutryggingarauka en allar tekjur, þ.e. 100%, koma nú til skerðingar sérstakrar heimilisuppbótar.

Réttur til tekjutryggingarauka verður samkvæmt frv. óháður hjúskaparstöðu lífeyrisþegans eða hvort hann heldur heimili með öðrum einstaklingi en sérstök heimilisuppbót er eingöngu greidd einstaklingum sem eru einir um heimilisrekstur.

Síðast en ekki síst er lagt til að fjárhæð tekjutryggingarauka sem áður var sérstök heimilisuppbót verði hækkuð um tæplega 90% eða úr 7.409 kr. í 14.062 kr. og þeir aldraðir og öryrkjar sem halda heimili með öðrum, t.d. maka sínum eða systkini eiga rétt á 10.548 kr. í stað þess að samkvæmt núgildandi reglum eiga þeir engan rétt til þessa bótaflokks.

Frv. fylgja drög að tveimur reglugerðum. Fyrri reglugerðin hækkar lífeyri og tekjumörk hjá elli- og sjómannalífeyrisþegum. Einnig fellir hún brott sérstök tekjumörk hjá ellilífeyrisþegum vegna tekna úr lífeyrissjóðum og hækkar almenna frítekjumarkið sem því nemur.

Síðari reglugerðin felur í sér hækkun á tekjumörkum frekari uppbótar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð úr 105.347 kr. í 112 þús. kr. til þess að hækkun bóta í frv. minnki ekki rétt til frekari uppbótar.

Frv. fylgir einnig sem fylgiskjal álit vinnuhóps um endurskoðun almannatrygginga og samspil þess við skattkerfið og lífeyrissjóði en frv. er ætlað að koma þeim tillögum sem þar greinir til framkvæmda. Áætluð útgjöld vegna þessa frv. eru um 1.350 millj. kr. á ári.

Virðulegi forseti. Ég tel raunhæft með góðri samvinnu við hv. Alþingi að koma þeim úrbótum sem frv. kveður á um til framkvæmda frá og með 1. júlí nk. Með því tel ég að hv. Alþingin geti haft nauðsynlegan tíma til að fjalla um efnisatriði málsins og Tryggingastofnun ríkisins hafi svigrúm til að geta greitt réttargreiðslur hinn 1. júlí nk. Þetta hefur í för með sér viðbótarútgjöld fyrir ríkissjóð að fjárhæð 675 millj. kr. á þessu ári.

Ég vil taka sérstaklega fram að nefndin sem undirbjó þessa tillögu hafði samráð við samtök aldraðra, öryrkja og verkalýðshreyfinguna áður en þær voru frágengnar. Auk þess kallaði ég fulltrúa aldraðra og öryrkja til sérstaks fundar til að fara yfir efnisatriði málsins áður en það var kynnt. Ég hef fullan skilning á því að forustumenn þessara samtaka munu halda áfram að vinna að kjarabótum fyrir skjólstæðinga sína. Þó að talsmenn þessara hópa hafi tekið tillögunum fálega vona ég að við getum verið sammála um að hér er um jákvætt skref að ræða fyrir þá sem verst eru settir. Ásakanir um hugmyndafræði fátækrahjálpar falla marklausar. Það frv. sem hér er lagt fram er dæmi um að framfylgja hugmyndafræði og stefnu sem byggir á frumkvæði og sjálfstæði en einnig samhjálp, dæmi um stöðugleika en líka markvissa stefnu til að auka félagslegan jöfnuð í samfélaginu.

Ríkisstjórnin er með frv. þessu að framfylgja stefnu sinni að flytja aðstoð ríkisins í meira mæli til þeirra sem mest þurfa á henni að halda, viðhalda og efla sjálfsbjargarviðleitni einstaklinganna án þess að búa til flókið skattheimtukerfi með enn flóknara endurgreiðslukerfi eins og sumir fræðimenn hafa talið að gæti leyst öll vandamál.

Með frv. kemur ríkisstjórnin til móts við ýmis af þeim sjónarmiðum sem samtök öryrkja hafa haldið á lofti á undanförnum mánuðum og missirum.

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur ríkt góðæri í íslensku samfélagi. Það hefur komið fram í kjörum almennings, yfirborgunum og launaskriði á ákveðnum sviðum atvinnulífsins og ákveðnum landsvæðum. Ekki má gleyma að á þessum tíma hefur ríkið náð samkomulagi við starfsfólk sitt um að færa yfirvinnu og yfirborganir inn í taxtalaun. Í lögum um almannatryggingar er hækkun bóta tengd fjárlagaafgreiðslunni og bætur tengdar launaþróun á almennum markaði. Á síðustu sex árum hafa bætur gert talsvert betur en að fylgja umsömdum launum á almennum vinnumarkaði. Bótagreiðslur hafa gert betur en að fylgja launavísitölu hins almenna markaðar. Lágmarksgreiðslur almannatrygginga hafa gert gott betur en það og þá eru ekki meðtaldar hundruð millj. kr. sem varið hefur verið til sértækra aðgerða fyrir aldraða öryrkja. Hér verða menn því að gera sér grein fyrir tölum og staðreyndum. Þeim hefur m.a. verið varið til að hækka frítekjumörk í þeim tilgangi að draga úr áhrifum tekna maka á örorkubætur.

Forustumenn aldraðra og öryrkja hafa að undanförnu haldið því fram að bæði innlendir og erlendir fræðimenn telji íslenska ráðamenn vera á rangri leið. Það hefur á undanförnum missirum verið ítrekað vitnað til skýrslu Stefáns Ólafssonar, Íslenska leiðin. Stefán Ólafsson prófessor, sem stundum er vitnað til, hefur reynt að greina þann vanda sem við er að etja í almannatryggingakerfinu og snýr að öldruðum. Hann bendir á að ójöfnuður í röðum ellilífeyrisþega sé meiri hér en annars staðar á Norðurlöndum og skýrir það með mismunandi atvinnutekjum, lífeyrisréttindum og eignatekjum eins og ég hef vakið athygli á og það kemur fram í skýrslu endurskoðunarnefndarinnar.

Hann bendir líka á að óánægjan í röðum ellilífeyrisþega sé að mestu leyti sprottin af þessum mismun. Stefán Ólafsson prófessor segir svo í úttekt sinni, með leyfi forseta:

,,Þegar fjallað er um aðstæður og úrræði vegna lífskjara eldri borgara er því nauðsynlegt að taka tillit til þessa munar á aðstæðum og möguleikum sem eru innan hóps eldri borgara hér á landi.``

Það er nákvæmlega þetta sem ríkisstjórnin er að gera nú. Það er nákvæmlega þetta sem fyrrv. heilbrrh. Ingibjörg Pálmadóttir hafði í huga þegar hún lagði fyrir ríkisstjórn í vetur að endurskoðunarvinnunni yrði hraðað og það er þetta sem ríkisstjórnin hafði í huga þegar mesti þunginn var lagður á að beina aðgerðum að þeim sem verst eru settir í samfélaginu.

Þær aðgerðir sem felast í þessu frv. og reglugerðum sem þar eru kynntar falla eins og áður segir að þessu markmiði og eru einmitt miðaðar við að koma þeim sem verst eru settir í hópi lífeyrisþega til góða. En jafnframt því er dregið úr áhrifum atvinnutekna öryrkja og staða hjónafólks er sérstaklega bætt. Þessar aðgerðir eru efndir á þeim fyrirheitum sem gefin voru hér á Alþingi við umfjöllun um öryrkjalögin svokölluðu í janúar sl. og síðar í mars en ég geri mér ljósa grein fyrir að í þeim felst enginn stóri sannleikur eða endanleg lausn. Þessi mál verða að vera í stöðugri endurskoðun og úrbætum verður trúlega seint lokið.

Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.