Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 19:20:30 (7605)

2001-05-11 19:20:30# 126. lþ. 120.48 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[19:20]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð þar sem hann svaraði nokkrum af þeim spurningum sem komu fram í umræðunni. Fyrst vildi ég óska eftir því að okkur verði sendar upplýsingar um hvaða skattaleg áhrif eru af þessari breytingu, þ.e. hvernig endanleg útgjöld ríkissjóðs verða vegna þessara breytinga. Sömuleiðis hefði ég gjarnan viljað fá einhver svör frá hæstv. ráðherra um hvort hann hyggist taka á þeim hópi öryrkja sem verða ellilífeyrisþegar vegna þeirra breytinga sem verða á kjörum þeirra bara við það eitt. Við vitum alveg að öryrki sem verður gamall mun ekki þurfa minni framfærslu en áður eftir að hann er orðinn 67 ára, þannig að ég kalla aðeins eftir því. Við það að verða 67 ára er meiri skerðing gagnvart grunnlífeyri og hætt er að taka tillit til þessara 40% tekna hans, ef hann er þá á vinnumarkaði, þær eru ekki teknar út fyrir vegna heimilisuppbótar og tekjutryggingar lengur, þannig að ég hefði gjarnan viljað heyra það ef hæstv. ráðherra hefur eitthvað velt því fyrir sér hvort einhvern veginn sé hægt að taka á þeim þætti í almannatryggingunum.