Vinnubrögð við fundarboðun

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 18:34:40 (7620)

2001-05-12 18:34:40# 126. lþ. 121.91 fundur 537#B vinnubrögð við fundarboðun# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[18:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fyrir klukkutíma var boðað til útbýtingarfundar án þess að nokkru þingskjali væri útbýtt. Hæstv. forseti svaraði engu þegar þingmenn spurðu hann hvað stæði fyrir dyrum. Sú spurning hefur vaknað í mínum huga hvort stjórn þingsins og þá sérstaklega hæstv. forseta Alþingis hafi verið kunnugt um það í gær, þegar um það var rætt að boðað yrði til útbýtingarfundar í dag, hvað til stæði að gera. Mér finnst það mjög ámælisvert og óafsakanlegt ef hæstv. forseti hefur haft vitneskju um þetta án þess að gera formönnum þingflokkanna grein fyrir því hvað til stæði.

Núna þegar verkfall sjómanna er byrjað að bíta þá hlýðir ríkisstjórnin húsbændum sínum í LÍÚ og sker þá niður úr snörunni. En ég vil spyrja hvort menn haldi að sjómenn geri sér leik að því að boða til verkfalls, hvort þeir geri sér leik að því að leggja niður vinnu. Það gera þeir ekki. Verkfall þeirra hefur það að sjálfsögðu í för með sér að þeir og fjölskyldur þeirra eru tekjulausar og svo hefur verið um nokkurra vikna skeið. Þetta er spellvirki sem ríkisstjórnin er að vinna á íslenskum sjómönnum (Forseti hringir.) og því mótmæli ég (Forseti hringir.) og ég mótmæli þeim vinnubrögðum (Forseti hringir.) sem viðhöfð eru og m.a. af hálfu hæstv. forseta Alþingis. (Forseti hringir.) Ég mótmæli því. (Forseti hringir.)