Vinnubrögð við fundarboðun

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 18:41:20 (7624)

2001-05-12 18:41:20# 126. lþ. 121.91 fundur 537#B vinnubrögð við fundarboðun# (um fundarstjórn), KVM
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[18:41]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. situr nú í sal Alþingis og er það mjög gleðilegt að hann skuli finna sig knúinn til þess að mæta á fund um útbýtingu þingskjala og sýnir þinginu það mikla virðingu. Hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála skaut því að mér áðan að ég væri ekki með bindi. Það er rétt. Ég hef tekið eftir því líka. En ég reiknaði heldur ekki með því að ég þyrfti að koma hér til þessa fundar og var ekki þannig klæddur þegar ég var að störfum í hæstv. heilbr.- og trn.

En nú hefur sannleikurinn komið í ljós. Spurningum hefur verið svarað með gjörðum starfsmanna þingsins. Búið er að dreifa hér frv. til laga um kjaramál fiskimanna og fleira. Þá vitum við til hvers þessi fundur var haldinn. Svo virðist, herra forseti, sem ríkisstjórnin hafi vitað til hvers fundurinn þessi átti að verða en ekki forsetinn sjálfur. Kannski hefur herra forseti reiknað með því að dreifa ætti allt öðrum skjölum á þessum fundi en þeim sem nú er verið að dreifa og e.t.v. á eftir að dreifa mörgum þingskjölum á þessum fundi svo að hægt sé að taka mál fyrir á næsta mánudegi.

En það gleður mig að heyra að herra forseti skuli ekki hafa haft nokkra einustu hugmynd um það að leggja ætti þetta frv. fram.