Vinnubrögð við fundarboð

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:08:06 (7646)

2001-05-14 10:08:06# 126. lþ. 122.91 fundur 540#B vinnubrögð við fundarboð# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:08]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég get því miður ekki sagt að mér komi á óvart það ábyrgðarleysi sem fram kemur í máli hæstv. forsrh. Íslands í þessu máli. Hann talar um upphlaup á Alþingi yfir venjulegum útbýtingarfundi. Á þessum fundi var dreift lagafrv. sem á að banna verkfall íslenskra sjómanna.

Ég hef þegar gert athugasemd við framvindu málsins undir liðnum um störf þingsins og ég ítreka þá eindregnu gagnrýni sem kom fram á laugardag.

Við þetta vil ég bæta að á sama tíma og þingfundur stóð yfir var heilbr.- og trn. þingsins að störfum. Hún hafði boðað til sín fjölda gesta. Það var úr vöndu að ráða fyrir hv. formann þeirrar nefndar og hefði ég ekki mælt með því að þeir góðu gestir yrðu sendir á braut. Hins vegar er ámælisvert af stjórn þingsins og af hálfu hæstv. forseta þingsins að boða til þingfundar á sama tíma og þingnefndin sat að störfum.

Ég sat sjálfur upphaf nefndarfundarins en varð að hverfa á braut af þessum sökum. Við þetta vil ég gera mjög alvarlega athugasemd.