Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:38:56 (7665)

2001-05-14 10:38:56# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:38]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er á algjörum villigötum í þeim ályktunum sem hann dregur af því sem hér hefur komið fram og því sem er í frv. Þau atriði er hann nefndi varðandi endurskoðunina, að hún er í engu samhengi við þetta í þeim stóru málum sem þar er sérstaklega verið að ræða. Auðvitað verður að halda áfram að vinna starf að löggjöf um fiskveiðistjórn þótt endurskoðunin sé í gangi. Ekki er hægt að láta allt saman vera nákvæmlega í þeim föstu skorðum endalaust meðan við bíðum eftir endurskoðuninni.

En það sem ég hef nánast alltaf sagt um Kvótaþingið er að það tengist meira kjaradeilum en annað er endurskoðunina varðar og breytingar á því yrðu að gerast í samhengi við kjaramálin og það er að gerast núna. Endurskoðunin mun síðan halda áfram í þeim stóru málum sem þar skipta mestu máli. Til þess að hv. þm. sé ekki að gefa mönnum sterkari vonir um sátt í þeim málum þá hef ég aldrei talað um þjóðarsátt í því efni, ég hef talað um að reynt yrði að ná víðtækari sátt en verið hefur um það stóra og mikla mál sem deilt hefur verið um. Ég hef aldrei talað um þjóðarsátt og mér þykir það mjög miður ef hann er að reyna að koma því inn í umræðunni að það sé eitthvað sem ég hafi sagt og sé eitthvert markmið. Það er ekki hægt að ná því í svo miklu deilumáli, það vitum við öll sem hér erum inni og auðvitað miklu fleiri.

Það sem ég sagði hins vegar um vinnubrögð þingsins og þá ábyrgð sem því fylgir að tefja málið stendur og eins þingreyndur maður og hv. þm. er á að skilja það fullkomlega að hægt er að vinna mál hratt þó að menn komi sjónarmiðum sínum á framfæri, sérstaklega í málum sem eru ekki ný af nálinni --- ég veit ekki hve oft við höfum rætt þessi mál hér í vetur og fyrr og unnið að svipuðum málum og svipaðri löggjöf og er nú verið að fjalla um.