Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 11:48:07 (7674)

2001-05-14 11:48:07# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[11:48]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst í máli mínu gera að umræðuefni atriði er varða þá málsmeðferð sem var uppi á laugardaginn var. Þannig hagaði til að ég var staddur vestur á fjörðum. Ég hygg að það megi teljast frekar góð venja þegar verið er að koma inn með mál sem eru langt á eftir þeim hefðum og venjum sem skrifuð eru í þingsköpin um framlagningu mála, að láta menn í stjórnarandstöðunni vita af því með einhverjum stuttum fyrirvara.

Það gerði a.m.k. hæstv. heilbrrh. fyrir örfáum dögum þegar hann boðaði þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar á sérstakan fund nokkrum klukkustundum áður en hann hugðist leggja fram frv. um lagfæringu, þó í smáu væri, á kjörum öryrkja og ellilífeyrisþega. Það var sérstaklega tekið fram í umræðu í þinginu að mönnum fyndist til fyrirmyndar að stjórnarandstaðan væri þó upplýst um mál sem væri að koma inn í þingið. Það var ekki gert í því máli sem við nú ræðum um að setja lög á kjaradeilur sjómanna og útgerðarmanna. Þess vegna kom það flatt upp á þingmenn þegar það fréttist að hér stæði til að leggja fram lagafrv. um að aflýsa löglega boðuðum aðgerðum sjómanna til að ná fram áherslum til leiðréttingar á sínum kjörum. Málið var þannig vaxið að þrátt fyrir að hringt væri í hv. Alþingi og spurst fyrir um hvort slíkt væri á döfinni þá var ekki hægt að fá það upplýst. En á sama tíma var málið í fréttum, komið á fréttavef Vísis, og síðan náttúrlega í fréttir útvarpsins klukkan fimm, reyndar svo afbakað þar að það mátti helst ráða af frásögn Ríkisútvarpsins að sennilega mundi líða um það bil klukkutími þar til flotinn gæti rokið af stað á sjó. Það var sem betur fer leiðrétt. Ég kom athugasemdum við þá frétt á framfæri og fékk það leiðrétt.

Mér finnst þetta mjög einkennilegt. Okkur þingflokksformönnum var sagt að til stæði að halda stuttan útbýtingarfund á laugardegi og ég held ég muni það rétt, þeir geta þá leiðrétt það eða staðfest aðrir þingflokksformenn, að nefnt hafi verið að til stæði að leggja fram nokkur skjöl sem mundu örugglega koma út úr nefndastarfi eða væri verið að vinna í nefndum. Okkur var alls ekki ljóst að það ætti að standa svo að málum sem raun varð og stjórnarandstöðunni var greinilega ekki trúað fyrir því, ekki einu sinni í trúnaði með örstuttum fyrirvara, að til stæði að leggja slíkt skjal hér fram. En það þótti sjálfsagt að leka því í fjölmiðla löngu áður en hægt var að upplýsa þá sem starfa í þinginu hvort slíkt mál væri á leiðinni eða ekki. Þetta finnst mér slæmt, slæm vinnubrögð. Öllum er ljóst að stjórnarandstaðan er andvíg því máli sem hér er til umræðu og engum var það betur ljóst en forustumönnum stjórnarflokkanna þannig að það þurfti ekkert að koma á óvart þó menn mundu bregðast við.

Herra forseti. Ef ég vík svo að efnisumræðu þessa máls þá eru þar fjölmörg atriði sem mér finnst þurfa að ræða. Með aðgerðum ríkisvaldsins hefur tekist að sundra sjómannasamtökunum og sá kjarasamningur sem vitnað er til og lagður til grundvallar því frumvarpi sem hér er verið að ræða um kjaramál fiskimanna, er afleiðing þess að stjórnvöldum og útgerðarmönnum tókst að kljúfa samstöðu sjómanna, kjúfa það verklag sem útgerðarmenn óskuðu sérstaklega eftir að viðhaft yrði í kjaradeilunni, þ.e. að sjómannasamtökin kæmu sameinuð til þessara viðræðna og það væri hægt að ræða við sjómannasamtökin sameiginlega. Ég veit ekki betur en sjómannasamtökin hafi sammælst um að þannig skyldi unnið í þessari kjaradeilu að menn stæðu saman að því að leysa hana og færu í gegnum hana sameiginlega. Það var ekki síst að ósk útgerðarmanna sem það vinnulag var tekið upp.

Ríkisstjórnin tók sér það hins vegar fyrir hendur fljótlega eftir að verkfall hófst þann 16. mars sl. að setja lög á deiluna og taka í raun kraftinn úr deilunni, þ.e. þann kraft sem þarf til í kjaradeilum þannig að þrýstingur myndist á útgerðarmenn og þá auðvitað líka sjómannamegin. En það var staðan sem var uppi þegar verkfallið var boðað þann 16. mars sl.

Jafnframt var ljóst að viðræður milli sjómanna og útvegsmanna, rétt áður en boðað verkfall skall á 16. mars, voru á talsverðri ferð, alla vega mátu sjómenn það svo að það væri að þokast í rétta átt. Þegar hins vegar nánast strax í kjölfarið á aðgerðum sjómanna var gripið til þess ráðs af hendi ríkisvaldsins að fresta því verkfalli til 1. apríl var þrýstingurinn tekinn úr deilunni.

Það er dálítið einkennilegt að hlusta síðan á orð hæstv. sjútvrh. talandi um að deilan hafi dregist á langinn, að deilan hafi dregist á langinn. Hverjir urðu til þess að deilan dróst á langinn? Þeir sem tóku þrýstinginn úr deilunni þegar hún var hafin. Þeir urðu til þess að deilan dróst á langinn. Það finnst mér liggja alveg ljóst fyrir. Menn voru sendir út á sjó aftur á miðnætti, að kvöldi þess 19. eftir að hafa verið í landi frá 16. Í sumum tilfellum voru sjómenn ekki einu sinni búnir að ná löglegum frídögum sínum því útgerðin vissi auðvitað af þessari dagsetningu og það hafði verið keyrt á veiðar af fullum krafti vikurnar á undan og sumir sjómenn áttu inni fleiri frídaga en þessa þrjá eða fjóra sem náðist að gefa því ákvæðið um boðun verkfalla er það að skip hætti veiðum og haldi til hafnar þegar verkfall hefst, þ.e. á miðnætti þann 16. mars og þá átti á mörgum skipum eftir að ganga frá þeim afla sem hafði veiðst fram að þeim tíma, þrífa skipin, m.a. frystiskipin, og gera þau klár til að liggja í höfnum einhverja daga eða vikur ef svo vildi verkast.

Þar af leiðandi kom upp sú staða þegar ríkisstjórnin tók sér það til verka að rífa niður aðgerðir sjómanna til þess að knýja á um samninga að sumir sjómenn voru jafnvel ekki búnir að ná hafnarfríi sínu. Menn voru kannski sendir út á sjó jafnvel með frystan afla um borð í skipum sínum til að fylla á og nota dagana fram að 1. apríl sem var sú dagsetning sem ríkisstjórnin ákvað að skyldi vera á þessum frestunartíma.

Niðurstaðan af þessu var sú að þeir sjómenn, fiskimenn í þessu tilviki, sem voru búnir að stunda veiðar af miklum krafti með litlum hléum vikurnar á undan voru aftur sendir út á sjó án þess jafnvel að hafa náð að taka út alla frídaga sína eða landa upp úr öllum skipunum og þrýstingurinn á viðsemjendur sem verkfallinu var ætlað að mynda féll niður.

[12:00]

Þannig voru aðgerðir stjórnvalda í þessu máli í upphafi þessarar kjaradeilu, þegar sjómenn gripu loks til verkfallsvopnsins eftir að hafa verið með lausa kjarasamninga í rúmt ár. Það er ekki hægt að áfellast stétt sem árum saman hefur verið kjarasamningalaus fyrir að grípa til aðgerða, eftir að hafa verið með lausa kjarasamninga í á annað ár. Undir þeim kringumstæðum er ekki hægt að áfellast menn fyrir að beita verkfallsvopninu. Menn beita verkfallsvopninu sem er réttur launþegasamtaka, lýðræðislegur réttur, varinn í stjórnarskrá og í mannréttindasáttmálum, til að ná fram leiðréttingu á kjörum sínum.

Það liggur fyrir að sjómannastéttin í þessu landi hefur verið samningslaus árum saman á undanförnum árum og hefur þar af leiðandi ekki notið sambærilegra launabreytinga og samið hefur verið um við margar aðrar stéttir.

Eitt hefur lengi verið deilt um í þessari kjaradeilu. Ég minnist þess að strax á árinu 1989 var reist sú krafa að fundinn skyldi grundvöllur frjálsrar verðmyndunar sem tryggði að verð ferskfisks tæki mið af verðmyndun á fiskmörkuðum. Þessi krafa hefur verið sett fram í kjarabaráttu sjómanna á annan áratug og enn hefur ekki verið gengið að henni. Skyldi það mál hafa verið leyst með þeim kjarasamningi sem þetta frv. á að miða við, kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands sem tók sér fyrir hendur að stía sjómönnum í sundur, semja við Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök atvinnulífsins, gera nýjan kjarasamning og bera hann undir atkvæði? Sá samningur var samþykktur með 163 atkvæðum held ég, frekar en 169, af félagsmönnum. Aðeins lítið brot félagsmanna tók þátt í atkvæðagreiðslunni og enn minna hlutfall samþykkti samninginn. Um 10% starfandi félagsmanna Vélstjórafélagsins samþykktu samninginn. Í samningnum er enn á ný tekist á um verðmyndunarmálin. Mér sýnast þær viðmiðanir sem þar eru settar inn, sem eiga að binda menn til næstu fjögurra og hálfs árs, óásættanlegur grundvöllur fyrir verðmyndun á ferskfiski.

Það er afar merkilegt að Íslendingar geti ekki farið sambærilegar leiðir og löndin í kringum okkur. Það er ekki eins og löndin í kringum okkur hafi ekki náð árangri í verðmætasköpun sinni með því að láta fiskmarkaðinn sjá um verðmyndunina. Það hafa Færeyingar gert fyrir nokkrum árum og Danir nýlega. Upplýst hefur verið að í Færeyjum hafa menn náð verulegum verðmætisauka fyrir færeyskt samfélag og fyrir sjávarútveginn þar.

Hér á landi taka útgerðarmenn sér fyrir hendur að reyna að berja niður fiskverð, berja niður það verð sem þeir eiga að fá fyrir afurðir sínar. Þeir gera út til fiskveiða og standa í stórkostlegum deilum áratugum saman um að berja niður verðið sem þeir eiga að fá fyrir afurðir sínar. Þetta er alveg stórkostleg og furðuleg staða og segir okkur að Landssamband íslenskra útgerðarmanna er ekki samband útgerðarmanna sem slíkra, heldur samband stórútgerðarmanna sem hafa hagsmuni fiskvinnslunnar í annarri hönd og hagsmuni kvótans í hinni og ákveða verðið sem greitt skal, þannig að þeir geti skammtað sjálfum sér arðinn. Um það stendur þessi slagur. Útgerðin vill geta ráðið því hvaða verð á að greiða til sjómanna og hvaða verð útgerðin sjálf reiknar til sín.

Í frv. segir í a-lið 2. gr. um að gerðardómur skuli ákveða ,,atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum`` --- verð til viðmiðunar fyrir hlutaskipti. Það er ætlunin, (Gripið fram í: Þetta er nýtt hugtak.) að búa til verð til viðmiðunar fyrir hlutaskipti. Það er eitthvert annað verð í gangi en það þarf að búa til sérstakt verð til viðmiðunar fyrir hlutaskipti.

Kjarasamningar sjómanna eru þannig upp byggðir, og rétt að upplýsa það í þessari umræðu, að áður en gert er upp við sjómenn eru 20% tekin frá í sérstaka kostnaðarhlutdeild af brúttóverði aflans, þ.e. 20% eru tekin frá í sérstaka kostnaðarhlutdeild sem eingöngu rennur til útgerðarinnar.

Það hefur verið orðað svo, m.a. af hv. þingmönnum stjórnarflokkanna, að aðalmeinsemd kjarasamninga sjómanna væri að fjármagnið fengi engan hlut, þ.e. fjármagn útgerðarinnar í dæminu fengi engan hlut. Kostnaðarhlutdeildin var á sínum tíma sett inn, að vísu í óþökk sjómannasamtakanna, að útgerðin fengi sérstakt fjármagn beint af fiskverðinu, af aflaverðmætinu áður en kæmi til hlutaskipta sjómanna, til að standa straum af fjármagnskostnaði útgerðarinnar, stofnfjársjóðnum gamla sem var inni í Fiskveiðasjóði, tryggingasjóði fiskiskipa og fleiri kostnaðarliðum sem tengdust skipaeign útgerðarmanna.

Fjármagninu var sem sagt tryggður hlutur, 20% hlutur, áður en fundinn er hlutur sjómanna. Nú er verið að setja inn í kjarasamning á nýjan leik, þess vegna er þetta slæmur samningur sem á er byggt í lagafrumvarpinu, sérstakt viðmiðunarverð þar sem útgerðin búi til verðgrundvöll sinn. Hvað á þessi verðgrundvöllur að gera? Hann á eingöngu að nota til að finna út hlut sjómanna.

Sennilega er þarna nýmæli á ferðinni og því ekki nema von að mönnum bregði nokkuð við þegar málið er sett upp með þessum hætti. Í raun er verið að segja: Það á að vera til fyrirkomulag sem tryggir að í gangi sé sérstakt verð sem útgerðinni er þóknanlegt þannig að hún geti haldið eftir mismun þess sem eðlilegt væri ef tekið er mið af markaðsverði. Hægt væri að orða það þannig að hér sé á ferðinni viðbót við kostnaðarhlutdeildina, kölluð því virðulega nafni ,,viðmiðunarverð hlutaskipta``.

Það er ekkert skrýtið, þegar menn sjá þetta og síðan þær tengingar sem búnar eru til að menn séu ekkert mjög hressir með samning Vélstjórafélags Íslands, og að ekki fleiri en 163 menn hafi þar fengist til að samþykkja samninginn. Það þarf enginn að undrast að svo fáir hafi fengist til að samþykkja hann. Fleiri atriði í þessum samningi og í frv. sem hér er til umræðu finnast mér efnislega óásættanleg með öllu. Ég er auk þess ósáttur við að ríkisstjórnin skuli yfirleitt leggja þetta frv. fram.

Ég hef í stuttu máli rakið hvernig ríkisstjórnin tók allan þrýsting úr þessari deilu í upphafi. Hvað var það næsta sem ríkisstjórnin gerði? Það tók nokkur ár að koma því á áður en það komst til framkvæmda, að taka upp sérstakt fæðingarorlof þorsksins, sem í nokkur ár hefur yfirleitt staðið í aprílmánuði. Um það hafði verið rætt fyrr í vetur við sjómannasamtökin og LÍÚ að fæðingarorlof þorsksins skyldi á þessu ári standa frá 1. apríl og fram í miðjan mánuðinn. Sjútvrh. tók sér fyrir hendur að láta fæðingarorlofið á þessu ári ekki koma til framkvæmda. Það var markviss aðgerð til að auðvelda þeim sem gætu róið, annaðhvort á skipum þar sem áhöfn átti skipið eða þá smábátaflotanum, að vera enn virkari við hráefnisöflun meðan á verkfalli sjómanna stæði. Hverjir breyttu afstöðu sinni í þessu máli, sem sennilega varð til þess að sjútvrh. tók þessa ákvörðun? Jú, það var LÍÚ. Auðvitað var það LÍÚ sem fékk því ráðið að menn breyttu þeirri hefðbundnu aðferð til að tryggja sérstakt fæðingarorlof fyrir þorskinn á ákveðnum svæðum við landið. Það þurfti á því að halda af því sjómenn höfðu boðað til aðgerða sem áttu að knýja fram þrýsting til þess að hann leiddi til kjarasamnings. Bæði frestun verkfallsins 19. mars og síðan þessi aðgerð urðu til að þrýstingurinn á að ná samningum varð minni.

Verkfallsaðgerðum er ætlað að mynda þrýsting. Verkföll eru boðuð til að búa til þrýsting. Verkfallsaðgerðir hljóta, hæstv. forseti, að hafa áhrif á fleiri atvinnugreinar og fleiri starfsstéttir, víðtækari áhrif og ekki bara á þá sem að deilunni standa, í þessu tilfelli sjómenn annars vegar og Landssamband íslenskra útvegsmanna hins vegar.

[12:15]

Það er einfaldlega eðli verkfalla að mynda þrýsting víða í þjóðfélaginu til að þrýsta á um að niðurstaða náist og það er réttur launþeganna að mega leggja niður störf til þess að knýja á um þann félagslega rétt að stéttarsamtök og stéttarfélög skuli semja um kjör manna.

Í þeirri deilu sem nú stendur er ríkisstjórnin að brjóta þennan rétt í annað sinn og er það nú nýmæli að tvisvar sinnum í sömu deilunni er sett lög á aðgerðir launþega til þess að ná viðunandi sátt í starfskjör sín.

Nánast á hverjum einasta degi síðan þetta verkfall hófst hafa komið einhvers konar meldingar í fjölmiðlum um að til stæði að setja lög á þessa deilu, menn væru að ræða það hér og þar úti í bæ og stjórnarþingmenn hefðu sagt að það drægi til þess að setja lög á þessa deilu, sjútvrh. sagði snemma að menn hefðu ekki endanlausan tíma í þessari deilu og þannig koll af kolli. Og ævinlega hefur það verið svo að sjómenn hafa verið látnir vita að þeirra friður til þess að ljúka þessari deilu með því að knýja fram kjarasamninga væri takmarkaður.

Það eru auðvitað viðsemjandinn, Landssamband íslenskra útvegsmanna, sem hefur getað treyst á að þannig mundu málin þróast, það væri eins víst eins og sólin kemur upp í austri að draga mundi til þess að ríkisstjórnin legði fram lög til að skera útgerðarmenn niður úr þessari snöru án þess að þeir þyrftu að ganga til samninga sem teldust ásættanlegir af hendi sjómannasamtakanna.

Þegar menn fara í kjaradeilu þá búast þeir aldrei við að ná öllu. Það er þannig líka í þessari deilu að menn hafa ekki búist við því að ná öllum sínum málum í höfn enda held ég að sjómenn hafi sýnt í verki að þeir vildu mjög gjarnan takmarka skaða sem gæti orðið í þjóðfélaginu og koma málum þannig fyrir að hægt væri að ræða þau án þess að m.a. fiskvinnslufólk yrði fyrir verulegum skaða.

Hvernig gerðu menn það? Hvernig lögðu menn upp með þá lausn? Jú, þeir gerðu það þannig að öll samtök sjómanna buðu fram sérstaka sáttaleið í janúar sl. Hún var þannig að sjómannasamtökin buðust til þess að samið yrði um þrjú atriði og þetta yrði skammtímasamningur sem mundi gilda til 31. desember á þessu ári, árinu 2001, og það sem þyrfti að nást samkomulag um við Landssamband íslenskra útvegsmanna til þess að ná fram þessari frestun um tæpt ár og ræða þá alvarlegri ágreiningsmál. Það voru laun, það voru einstakir kaupliðir, kauptrygging, tímakaup, hlífðarfatapeningar, fæðispeningar og önnur sík atriði, viðbótarframlag í lífeyrissparnaði og breyting á slysatryggingum félagsmanna Farmanna- og fiskimannasambandsins, Sjómannasambandsins og Vélstjórafélagsins.

Undir þetta tilboð, sem var gert í janúar og afhent útgerðarmönnum, skrifuðu öll samtök sjómanna og allir forustumenn þeirra. Síðan yrði tíminn notaður til þess að taka á þeim erfiðu deilum sem ég m.a. vék að varðandi fiskverðið og varðandi þá kröfu útgerðarmanna að það skyldi lækka hluti sjómanna sem þeir svo náðu fram í þessum sérstaka samningi við Vélstjórafélagið. Þau erfiðu mál átti sem sagt að ræða í tólf mánuði, nánast allt þetta ár. Ef samningurinn hefði komist á hinn 23. janúar hefðu menn haft allt þetta ár til þess að ræða þessi mál og ríkisstjórnin hefði ekki þurft að fresta verkfallinu og byggja það á því að það ætti að bjarga verðmætum á loðnuvertíð og koma núna með lagasetningu sem eigi að tryggja að stórútgerðin geti veitt karfann sinn og síldina í Smugunni, því allt snýst þetta um hagsmuni stórútgerðarinnar, allt saman, málið eins og það leggur sig.

Nei, það varð aldeilis ekki að menn tækju þessu tilboði fagnandi. Útgerðarmenn blésu það út af borðinu, töldu enga ástæðu til þess að málið yrði sett í þennan farveg, þann sérstaka farveg að semja um þrjú atriði og öll önnur atriði skyldu sett í sérstaka vinnu. Og boðið var upp á heilt ár til að leysa það, enda væri þá komið á sérstöku vinnufyrirkomulagi þar sem menn héldu áfram við að vinna að því að leysa þessi mál. Nei, nei, þetta var auðvitað blásið út af borðinu.

Útgerðarmenn tóku sér fyrir hendur að svipast um og athuga hvort ekki mætti koma óorði á forustumenn sjómanna og kjúfa samstöðu þeirra. Það vinnufyrirkomulag þeirra hefur jafnvel gengið svo langt að útgerðarmenn hafa á síðustu dögum verið að lýsa ákveðna forustumenn sjómannasamtakanna óhæfa til samningsgerðar og jafnvel sagt að þeir hefðu engan vilja og það væri þeim sérstaklega persónulega að kenna að ekkert gengi að leysa þessa deilu. Það er eins og forustumennirnir fái bara öllu ráðið.

Nei, þeir fá ekki öllu ráðið. Þeir hafa samninganefndir á bak við sig. Kannski missterkar samninganefndir eða samninganefndir með missterkar meiningar. Eigi að síður getur enginn forustumaður leyft sér að tala algjörlega í blóra við sína samninganefnd. Það er alla vega hlutur sem ég þekki ekki að menn hafi komist upp með.

Þetta er eitt af þeim atriðum sem rétt er að draga fram í þessari umræðu, að sjómannasamtökin voru búin að bjóða fram sérstaka sáttaleið til að koma í veg fyrir að verkföll skyllu á, enda næðu menn þá saman um ákveðin grunnatriði sem vörðuðu kaup og kjör en settu erfiðustu málin eins og fiskverðsmálin og kröfur útgerðarmanna um lækkun hlutaskipta til sjómanna í sérstakt ferli.

Það þótti útgerðarmönnum ekki ásættanlegt. Hins vegar tókst þeim að búa til þann samning sem þetta frv. er byggt á og setja þar inn atriði eins og t.d. þau að þegar breyting verður í áhöfnum skipa skuli hlutur manna lækka. Dæmið sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnaði til áðan að ég hefði verið að benda sér á um það að ef kokkurinn veiktist og tíu menn færu á sjó þá skyldi útgerðin fá 1/4 af kaupi kokksins, er alveg rétt.

Í kjarasamningum sjómanna, 1. gr. þeirra allra held ég --- ég er reyndar með samning Farmanna- og fiskimannasambandsins í höndunum, segir, með leyfi forseta:

,,1. Kafli. Almenn og sameiginleg ákvæði.

a) Hlutaskipti

1.01 Hlutir.

Útgerðarmaður tryggir`` --- í þessu tilfelli --- ,,yfirmönnum hlut úr aflanum.

Aldrei skal skipta í fleiri staði en menn eru í veiðiferð.``

Svo segir í kjarasamningnum.

Í samningi Vélstjórafélagsins sem lagður er til grundvallar í þessu frv. bætist ný grein við þessa upphafsgrein, gr. 1.01. Hún hljóðar svona, með leyfi forseta:

,,2.1. Séu færri menn á skipi en samkvæmt skiptakjara\-ákvæðum kjarasamningsins skiptast 3/4 af aflahlut þess eða þeirra sem á vantar á milli skipverja í réttu hlutfalli við skiptahlut hvers og eins en 1/4 rennur til útgerðarinnar.``

Þarna er miðað við skiptatöfluna eins og hún er í samningnum. Þetta dæmi sem ég tók um kokkinn er einfaldlega til þess að sýna fram á hvernig þessi útfærsla er hugsuð. Þess vegna er hún óásættanleg. Ég skil ekkert í því hvernig mönnum datt í hug að setja þetta ákvæði inn í kjarasamning, ég verð að segja það alveg eins og er, að það skuli sjálfkrafa gerast þegar menn taka að sér verk annars manns sem hverfur úr áhöfninni að 1/4 af hlutnum renni þá til útgerðarinnar.

Ég verð að segja eins og er að ég hefði getað skilið það ef þessu ákvæði væri breytt í þá veru að hlutur viðkomandi manns skiptist á milli áhafnarinnar og að þetta ákvæði um að eigi skuli skipta á fleiri menn en eru í veiðiferð breyttist því þá hefði hlutur kokksins í þessu tilviki, 1,25 --- flestir matsveinar eru á einum og kvart hlut --- verið fundinn út og skipt á áhafnarmeðlimi. Það held ég að hefði kannski verið ásættanlegt. En að útgerðin skuli sérstaklega hagnast á því ef aðrir menn vinna störf matsveinsins, eða yfirleitt annarra manna, fæ ég ekki skilið.

Ég sé að farið er að saxast á tíma minn. Það var ekki vanþörf á því að ég óskaði eftir lengri ræðutíma. Ég mun koma betur að þessum málum í síðari ræðu minni í dag. En það er m.a. (Forseti hringir.) þetta atriði sem ég tel að megi ekki koma inn því það getur knúið fram launalækkun. Það er lítill sómi að því hjá okkur þingmönnum að setja lög um að lækka menn í launum.