Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 20:18:17 (7752)

2001-05-14 20:18:17# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[20:18]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Segir hv. þm. að það hafi komið fram í framkomu ráðherranna, eða hverra? Það er svo margt sagt í fréttum. Ég minnist þess ekki að ráðherrar í ríkisstjórn eða einstakir þingmenn stjórnarinnar hafi lýst því yfir að það ætti að setja lög á sjómenn vegna þess að útgerðarmenn hefðu beðið um það. Ég hef heldur ekki heyrt það frá neinum þessara aðila að þeir hafi lýst því yfir að þeir vildu yfirleitt setja lög á þessa deilu. Það hefur þvert á móti komið margítrekað fram að menn vildu ekki setja lög á þessa deilu heldur leyfa mönnum að kljást við hana eins og kostur er.

Niðurstaðan er sú að eftir sex vikna verkfall er ekki sýnileg nein lausn í málinu. Spurningin er þá: Hvað hefði hv. þm. viljað gefa langan frest? Hefði hv. þm. viljað gefa deiluaðilum tvo mánuði í viðbót eða einn mánuð í viðbót? Hvað átti að ganga langt í þessum samningaumleitunum þegar það er sýnilega ekki að semjast á næstunni?

Ég held að allir þeir sem eru að velta þessu máli fyrir sér skilji og skynji að efnahagslíf þjóðarinnar þolir ekki að einn helsti atvinnuvegur þjóðarinnar sé stöðvaður mánuðum saman. Þess vegna neyðast menn bara af illri nauðsyn til þess að setja lög. Ég held að enginn í þingliði sjálfstæðismanna alla vega fagni því að þurfa að setja lög sem þessi. Það er neyðarbrauð og í mínum huga er sorglegt að þurfa að standa í því.