Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 22:03:49 (7761)

2001-05-14 22:03:49# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[22:03]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir mjög málefnalegar umræður í dag, langar og strangar en athyglisverðar umræður.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon komst þannig að orði að verstur væri gjörningurinn. Ég verð að viðurkenna að það fer mjög nærri því að lýsa því sem mér býr í brjósti við að þurfa að leggja fram þetta frv. Það er langt frá því að mér þyki gott eða æskilegt að þurfa að leggja fram frv. í þessa veru. Eigi að síður er það nauðsynlegt á þeim forsendum sem ég rakti í framsöguræðu minni. Eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson réttilega fór með er það vegna almannaheilla. Hv. þm. Ögmundur Jónasson spurði mig að því hvernig ég mundi axla ábyrgð mína. Ég axla ábyrgð mína á þeim forsendum, ég ber ábyrgð gagnvart heildinni, ekki gagnvart einstökum hópum heldur gagnvart heildinni.

Það sem hæst hefur borið í umræðunni er lögmæti aðgerðanna. Hv. þm. hafa sumir hverjir efast um að löglegt væri að grípa inn í kjaradeilur á þennan hátt með lögum. Þegar við endurskoðuðum stjórnarskrána síðast, árið 1994, var m.a. fjallað um samningsréttinn í þeim greinum sem þar var verið að fjalla um, í 75. gr. Og í framsöguerindi nefndarinnar sem um málið fjallaði um brtt. sem hún lagði fram við þessa grein kom fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Það er jafnframt rétt að taka fram að það er skilningur nefndarinnar að þetta ákvæði tryggi það að löggjafinn hafi síðasta orðið ef honum býður svo við að horfa gagnvart kjarasamningum, þ.e. þeir eru að sjálfsögðu frjálsir en löggjafinn er æðri eins og verið hefur. Það er rétt að undirstrika að í þessu frv. eru samningar eins og kjarasamningar ekki lagðir að jöfnu við löggjöfina. Ef sú staða kemur upp, sem hefur komið upp og reyndar margoft, að samningsaðilar geta ekki leyst sín mál með frjálsum hætti og málefni séu komin í þá klípu og það óefni að ekki sé unnt að leysa þau á grundvelli frjálsra samninga þá hefur löggjafinn eftir sem áður sömu völd og sömu möguleika og hann hefur í dag til að grípa þar inn í.``

Þetta er útlistun á því hvað felst í þessari grein stjórnarskrárinnar. Það vill þannig til að í tilefni af lagasetningu vegna vinnudeilu sjómanna og útvegsmanna 1998 var málinu skotið til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Vinnumálastofnunin komst að sömu niðurstöðu, að það væri lögmætt að grípa inn í deiluna og tiltók m.a. að deilan hefði staðið lengi, deiluaðilar hefðu haft tækifæri til að leysa deiluna og að miklir almannahagsmunir væru í húfi. Það sama á við eins og nú stendur.

Annað atriði hefur borið mjög hátt, þ.e. umræða um lögmæti þess hvernig frumvarpið er útfært. Mjög margir hv. þm. hafa tekið undir athugasemdir og gagnrýni sjómanna á 3. gr. þar sem fram koma leiðbeiningar til gerðardóms um hvað skuli haft til hliðsjónar þegar gerðardómur vinnur að því að leysa úr deilunni. Það skal viðurkennt að vegna eðlis gerðardóms er umdeilanlegt hversu ítarlegar leiðbeiningar skal setja í lög um hvað gerðardómur skuli hafa til hliðsjónar. Það má vel vera að of langt hafi verið gengið í þessu efni hvað frv. varðar.

Ég vil því fara þess á leit, sérstaklega vegna gagnrýni sjómanna, að hv. sjútvn. fari yfir það í störfum sínum hvort sé nauðsynlegt að ganga svo langt og hafa svo ítarlegar leiðbeiningar til gerðardómsins, hvort rétt sé að breyta því og hvort nefndin telji rétt að flytja brtt. við frv. þar að lútandi. Ég vona að nefndin taki vel á þessari beiðni minni. Ef nefndin þarf á stuðningi eða aðstoð að halda þá býð ég hana fram af hálfu ráðuneytisins.