Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:21:46 (7784)

2001-05-15 10:21:46# 126. lþ. 123.91 fundur 545#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:21]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Þetta voru skrýtin lokaorð hjá hv. þm., að það væri óþarfi að kalla til sérfræðinga vegna þess að menn ættu bara að treysta á sjálfa sig. (Gripið fram í.) Stundum þurfa hv. þm. á aðstoð að halda og mér sýndist ekki vanþörf á því, herra forseti, í þessu tiltekna máli, að menn fengju aðstoð við að greiða úr því hvort stjórnarskrá og alþjóðasamningar væru brotnir við meðferð þessa máls.

Herra forseti. Hæstv. félmrh. sagði að frv. hefði verið samið á laugardaginn í miklum flýti og þá hefðu starfsmenn Stjórnarráðsins verið í fríi. Ég vil bara segja, herra forseti, að ef menn ætla að skella á lögum á skömmum tíma um svo alvarleg mál sem ígrip í vinnudeilur eru þá eiga þeir að sjálfsögðu, herra forseti, að undirbúa þau þannig að þau standist stjórnarskrá og alþjóðasamninga. Það er það sem þessi umræða snýst um. Það er með öllu óásættanlegt að þetta skuli ekki hafa verið gert. Þessa vinnu átti að vinna í skjóli nætur undir þeim mikla þrýstingi sem menn vita að er hér í þinglok á þessum tíma árs.

Herra forseti. Ég vil bara segja enn og aftur: Þessi vinnubrögð eru fullkomlega óásættanleg og breytir engu þar um þótt tekið hafi verið tillit til margra þeirra ábendinga sem fram komu í nefndinni. Þessi faglega skoðun fór ekki fram og hið alvarlegasta er að hún átti sér ekki stað áður en frv. var lagt fyrir hið háa Alþingi.