Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 15:06:39 (7822)

2001-05-15 15:06:39# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þá hreinskilni og þann kjark sem hann sýnir hér þegar hann viðurkennir að tími hans í Sjálfstfl. hafi sumpart verið mistök og einnig hitt að ég tek auðvitað mikið mark á því þegar maður á borð við hv. 4. þm. Vestf. kemur hér og segir okkur hvernig háttað er til á stjórnarheimilinu, þ.e. í herbúðum stærsta stjórnmálaflokks landsins, Sjálfstfl. Ég er auðvitað ekki eins dómbær um það og hann, hafandi verið harður andstæðingur þessa flokks alla tíð og ekki síst nú. En þegar hv. 4. þm. Vestf. segir það hreint út að af eigin kynnum hafi hann skynjað það og skilið að Sjálfstfl. sé kominn út úr skápnum, sé ekki lengur flokkur allra stétta heldur hagsmunagæslusamband atvinnurekenda og útgerðarmanna, bið ég hv. þm. Guðmund Hallvarðsson sérstaklega að leggja við eyru.