Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 15:43:56 (7829)

2001-05-15 15:43:56# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. spurði mig um skilning minn á setningunni, með leyfi virðulegs forseta:

,,Þá leggur meiri hlutinn til að við ákvarðanir um gildistíma geti gerðardómurinn haft til hliðsjónar gildistíma annarra skyldra kjarasamninga.``

Mér er ljúft að endurtaka það sem ég sagði í umræðum um þetta í morgun. Ég vakti athygli á því og sagði að að sjálfsögðu þýddi þetta það að gerðardómurinn gæti tekið tillit til samninga Vélstjórafélagsins og LÍÚ. Það gefur augaleið. Og sá samningur sem þar um ræðir er vitaskuld hluti af þeim samningum sem hafa verið gerðir upp á síðkastið og er þess vegna ákveðin leiðsögn í þessu máli. En gerðardómurinn er ekki bundinn af þessum samningi eða neinum einstökum samningum og út á það gengur þessi brtt. Það er því auðvitað ekki svo. Hv. þm. var öðrum þræði að gagnrýna það að verið væri að leggja of mikla leiðsögn fyrir kjaradóminn en um leið að kalla eftir nánari útskýringu á þessari setningu. Í því felst auðvitað mótsögn. Um leið og við erum að breyta frv. á þann veg sem ég var hér að fara yfir og breyta orðalagi frv. þá er ekki um leið hægt að setja niður nákvæma útlistun á því umfram þetta sem hér hefur verið sagt og ég hafði þegar sagt í þessari umræðu.