Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 16:28:21 (7832)

2001-05-15 16:28:21# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Verkfall sjómanna og verkbann útgerðarmanna hefur staðið í sex vikur. Það bitnar á fjölda starfsmanna í frystihúsum og fyrirtækjum í framleiðslu og sölu á fiski og ógnar lífsnauðsynlegum mörkuðum aðila sem eru ekki aðilar að deilunni. Einnig líða aðilar deilunnar fyrir verkfallið, þ.e. sjómenn og útgerðarmenn, útgerðarmenn sem eru margir hverjir ekki í sterkri stöðu fyrir. Hv. þm. geta haft ýmsar skoðanir á þessari lausn. En telur hv. þm. Jóhann Ársælsson eðlilegt við slíkar aðstæður að tefja málið með löngum ræðum um ýmis tengd mál, alþjóðasamninga, mannréttindi, stjórnarskrá, lífeyrismál o.s.frv. og lengja í atvinnuleysi þessa fjölda landverkafólks og hindra sjómenn í að fara út?