Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 17:03:10 (7841)

2001-05-15 17:03:10# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[17:03]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Verkfall sjómanna hefur nú staðið í sex vikur og við gerum okkur öll grein fyrir því að erfiðleikarnir eru miklir, bæði hjá sjómönnum vegna tekjutaps en við gerum okkur líka grein fyrir því að aðrir lenda í afleiðingum verkfallsins, svo sem eins og fiskverkafólk, sveitarfélögin, útgerðin og náttúrlega ekki síst landið allt. Það er eftir þessar sex vikur sem hæstv. ríkisstjórn ákveður að setja lög á sjómenn og banna þeim að fara í verkfall eða halda áfram verkfalli.

Aðdragandinn að þessu máli er með ólíkindum, virðulegi forseti. Það er lagt fram sl. laugardag án þess að kynning hafi farið fram, kynning af nokkru tagi, t.d. gagnvart stjórnarandstöðunni og málið sett í útbýtingu án þess að menn áttuðu sig á því hvað væri þar á ferðinni. Þetta eru slæleg vinnubrögð í svo umdeildu og mikilvægu máli. Við getum ekki annað en lýst andstöðu okkar við að þannig sé staðið að málum. Eðlilegra hefði verið að hafa samráð um útbýtinguna þannig að menn hefðu vitneskju um málið og gætu strax á því stigi málsins aflað sér upplýsinga.

Virðulegi forseti. Síðan fóru fram umræður í allan gærdag um frv. sem hafði séð dagsins ljós. Vinnuferillinn er þannig að maður finnur í hinu háa Alþingi að stjórnarliðið fyllist óþolinmæði yfir því að við skulum vilja nota þann tíma sem við teljum að þurfi til þess að fara ofan í málin og skoða þau frá grunni. Þannig voru menn óhressir með langar ræður og mikla gagnrýni allan daginn í gær.

En við lukum 1. umr. um frv. upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi og þá var því vísað til sjútvn. Klukkan ellefu þrjátíu í gærkvöldi var haldinn fundur í sjútvn. og þangað voru boðaðir fulltrúar sjómannasamtakanna, fulltrúar frá Vélstjórafélagi Íslands, fulltrúar LÍÚ og ekki síst það sem hafði verið lögð mikil áhersla á í umræðum, þá kom lögfræðingur félmrn. á fund nefndarinnar.

Ég vil halda því skýrt til haga, virðulegi forseti, að fulltrúar sjómannasamtakanna, eftir því sem ég skildi, voru allir sem einn algerlega andvígir því að sett yrðu lög á sjómenn. Þannig að það sé alveg klárt. Fulltrúi LÍÚ var einnig andvígur því.

Menn gátu síðan rætt um frv., skoðað það og gert við það breytingar en menn voru sammála um að það ætti ekki að setja lög á sjómenn.

Í umræðunni hefur mikið verið rætt um 2. gr. frv. en þar er hin svokallaða forskrift fyrir margumræddan gerðardóm sem á að koma á laggirnar. Forskriftin er afar nákvæm. Hún er í mörgum liðum. Þar segir:

,,a. atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila,

b. atriði er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör,

c. atriði er varða kauptryggingu og launaliði,

d. atriði er varða slysatryggingu,

e. atriði er varða afmörkun á helgarfríi fiskimanna á netaveiðum,

f. atriði er varða mótframlag útvegsmanna vegna viðbótarlífeyrissparnaðar fiskimanna og

g. önnur atriði sem nauðsynlegt er að taka á varðandi kjaramál.``

Eins og frv. var sett fram í gær, virðulegur forseti, þá var 3. gr. orðuð þannig:

,,Gerðardómurinn skal við ákvörðun sína samkvæmt lögum þessum taka mið af samningi um breytingar á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands sem undirritaður var 9. maí 2001 og öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á. Þá skal gerðardómurinn taka mið af sérstöðu þeirra aðila sem nefndir eru í 1. gr., auk sjónarmiða um almenna þróun kjaramála.``

Virðulegi forseti. Á fundi sjútvn. í gærkvöldi kom meiri hlutinn með breytingartillögu sem hefur nú verið dreift með meirihlutaálitinu en það varðar einmitt þessa 3. gr. Það er nefnilega þannig, og það er skilningur mjög margra í þinginu, að þetta frv. til laga gefi í raun og veru gerðardómi, sem á að setja á laggirnar, algjöra forskrift að því hvernig hann á að vinna að þessum málum og það sé svo undirstrikað rækilega í 3. gr. hvernig á að fara að því.

Stjórnarmeirihlutinn mildaði 3. gr. í gær með brtt. sem sett verður fram þannig að ekki sé vísað beint í samninga Vélstjórafélags Íslands. Brtt. hljóðar því svo, með leyfi herra forseta:

,,Gerðardómurinn skal við ákvörðun sína samkvæmt lögum þessum hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á og almenna þróun kjaramála, auk þess að taka mið af sérstöðu þeirra aðila sem nefndir eru í 1. gr.

Ákvarðanir gerðardómsins skv. 1. mgr. skulu vera bindandi frá gildistöku laga þessara og skal gerðardómurinn hafa lokið störfum fyrir 1. júlí 2001. Hann skal ákveða gildistíma ákvarðana sinna og getur í því sambandi haft hliðsjón af gildistíma annarra skyldra kjarasamninga.``

Þetta er örlítið mildari framsetning á 3. gr., mildari frá því sem fram var sett í sjálfu frv. í gær en samkvæmt skilningi margra er nú um svipaða hluti að ræða hér.

Ég spyr, virðulegi forseti: Ef menn vildu setja fram frv. til laga um að stöðva verkfall sjómanna hvers vegna þurfti þennan málatilbúnað með gerðardóminn? Hvers vegna þurfti þessa formúlu fyrir gerðardóminn? Og hvers vegna þarf þessa formúlu fyrir gerðardóminn um hvernig hann eigi að vinna? Þetta er ákaflega hættulegt mál og viðmiðið við samning Vélstjórafélagsins er eftir bestu manna yfirsýn þess eðlis að það getur í vissum tilfellum leitt til launalækkunar hjá sjómönnum. Þetta eru alvarlegir hlutir.

Ef menn vildu stöðva verkfallið með lagasetningu hvers vegna var það þá ekki gert á einfaldan hátt þannig að stöðvunin gilti með einföldum lagabálki þannig að menn héldu þó þeim réttindum sem þeir hafa í dag þangað til annað er ákveðið? Það væri hin venjulega leið til að fara. Auðvitað hefðu menn síðan átt í staðinn fyrir að setja gerðardóm með lögum sem margir vilja meina að vegna eðlis frv. eða framsetningar frv. að hér sé ekki um að ræða annað en nefnd, ekki gerðardóm, vegna þess að skilningur flestra á gerðardómi er sá að gerðardómur sé dómur sem báðir aðilar komi sér saman um að skipa til þess að leysa mál. Hér er hæstv. Alþingi að setja lög um að setja á laggirnar gerðardóm sem skipaður verður á grunni laganna og það er allt önnur aðkoma en venjulegt er þegar menn tala um að stofna gerðardóm.

Þetta eru grafalvarlegir hlutir, virðulegi forseti. Við höfum áhyggjur af því mörg, að vegna þessarar uppsetningar og vegna þeirrar formúlu sem gerðardómnum er gefinn í 2. gr., sem er raunar formúlan sem er gefin upp í kjarasamningum vélstjóra, séum við á mjög hæpnum forsendum gagnvart alþjóðaskuldbindingum um félagafrelsi og réttindi borgaranna. Við höfum margsinnis lýst því yfir í ræðum okkar að við séum hrædd um að slíkur málatilbúnaður muni aldrei standast fyrir dómstólum ef menn vilja fara þá leið að lögsækja og fá umfjöllun um málið.

Lög á sjómenn á Íslandi út frá alþjóðaskuldbindingum hvað þetta varðar eru nefnilega á mjög veikum grunni. Sjómenn hafa ekki haft samninga svo árum skiptir. Í áranna rás hafa verið sett lög á sjómenn hvað eftir annað. Ég efast um það eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið að málatilbúnaður af þessu tagi muni standast alþjóðalög samkvæmt þeim skuldbindingum og samþykktum sem við höfum skrifað undir og erum aðilar að.

Hvað eftir annað, virðulegi forseti, erum við með flumbrugang á hinu háa Alþingi eins og ég tel að raunin sé núna. Vaðið er í málin án þess að skoða þau nægilega, að setja í gegnum þingið á ofurhraða lög og frv. og reglugerðir sem við höfum ekki unnið fullnægjandi. Það er leiðinlegt til afspurnar ef við í hita leiksins þurfum að standa þannig að málum að e.t.v. eftir örfáa mánuði eða missiri þurfum við að éta ofan í okkur stjórnvaldsaðgerðir af þessu tagi.

Það er þess vegna, virðulegi forseti, sem ég vara við þessum kafla sérstaklega, þ.e. um gerðardóminn, á grunni 2. gr. og á grunni 3. gr. í frv. til laga þó svo að meiri hluti sjútvn. hafi sl. nótt búið til brtt. hvað varðar 3. gr. laganna.

[17:15]

Virðulegi forseti. Ég vil vitna í álit minni hluta sjútvn., en öll stjórnarandstaðan stendur að því:

,,Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að enn einu sinni skuli sett lög á kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna og nú í annað skipti í þessari lotu sjómanna við að reyna að ná kjarasamningi með því að beita verkfallsvopninu. Ríkisstjórnin greip inn í deiluna 19. mars sl. eftir að verkfall hafði staðið í þrjá sólarhringa og frestaði því til 1. apríl. Þetta var gert þrátt fyrir að talið væri að gangur væri að komast í viðræðurnar og deiluaðilar hefðu mótmælt því að löggjafinn gripi inn í. Afleiðingar þeirra afskipta urðu til að spilla fyrir samningsmöguleikum eins og stjórnarandstaðan varaði við þegar frestunarlögin voru sett. Nú sex vikum síðar standa menn svo frammi fyrir afleiðingum fyrri inngripa: samningar hafa ekki tekist.

Með þessari lagasetningu er verið að banna verkfall sjómanna og þeir þannig sviptir rétti sínum til að beita þeim vopnum sem fyrir löngu hafa verið viðurkennd sem hluti af mannréttindum. Nefndinni gafst afar takmarkaður tími til starfa og minni hlutanum var neitað um að kalla hagsmunaaðila á fund nefndarinnar til að fá álit þeirra á málinu.``

Minni hluti sjútvn. óskaði sérstaklega eftir því að fá aðila úr félmrn. til umræðu um einmitt 3. gr. frv. og reyndar einnig um 2. gr., þ.e. hvernig gerðardómurinn ætti að vinna og hvernig við stæðum gagnvart alþjóðaskuldbindingum ef við settum lög með þeim ramma sem gerðardóminum er gefinn og með því að skipa gerðardóminn á þann hátt sem hér er lagt upp með.

,,Með frumvarpinu er gerðardómi falið að ákvarða kjör sjómanna. Í 2. gr. frumvarpsins eru talin upp þau atriði sem gerðardómur á að taka ákvörðun um. Minni hlutinn telur að afar hæpnar forsendur séu fyrir því að lögfesta þau atriði sem gerðardómur á að takast á við og varða munu kjör sjómanna. Efnislega gagnrýnir minni hlutinn einkum a-lið 1. mgr. 2. gr. þar sem gerðardómi er falið að ákveða ,,atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila``. Hér er vísað í atriði sem einungis er að finna í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Minni hlutinn bendir á að samkvæmt kjarasamningum sjómanna, grein 1.26, skal útgerðarmaður tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn. Minni hlutinn telur að svokallað ,,verð til viðmiðunar`` sé fráhvarf frá þessari grein kjarasamningsins og varar við lögfestingu þessa ákvæðis. Afleiðing þessa kann að verða sú að til verði eins konar nýtt ,,landssambandsverð`` og að þeir aðilar sem hingað til hafa lagt sinn fisk inn á markað kjósi þá frekar að nýta sér hið nýja ,,landssambandsverð`` til uppgjörs á aflahlut sjómanna. Ef svo fer er það stórt skerf aftur á bak á sama tíma og talið er eðlilegt að samkeppni og markaður ráði verði á öðrum sviðum atvinnulífsins. Nær hefði verið að ríkisstjórnin lýsti því yfir að stefnt væri að aðskilnaði veiða og vinnslu`` --- ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson höfum einmitt lagt fram á hinu háa Alþingi frv. til laga um aðskilnað á veiðum og vinnslu sem enn hefur ekki fengið afgreiðslu í nefnd --- ,,og að allur afli yrði verðlagður á markaði. Þannig væri stærsta deilumál sjómanna og útvegsmanna leyst og forsendur skapaðar fyrir eðlilegum samskiptum þessara aðila.

Það vekur sérstaka eftirtekt að ríkisstjórninni skuli hafa legið svo á að koma lögum yfir sjómenn að hún gaf sér ekki tíma til að gaumgæfa hvort það frumvarp sem lagt var fyrir Alþingi, á einstæðum útbýtingarfundi, samrýmdist ýmsum alþjóðasáttmálum og samþykktum sem Ísland er aðili að, eins og samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO). Það rann hins vegar upp fyrir ríkisstjórninni við 1. umræðu málsins að líklega hefði hún gengið út fyrir öll mörk í frumvarpinu. Í tilraun til að forðast frekari ákúrur af hálfu ILO, og til að eiga síður á hættu að verða uppvís að því að brjóta frekar af sér gagnvart öðrum samningum sem Ísland er bundið af, hefur ríkisstjórnin hlutast til um að meiri hlutinn geri breytingar á 3. gr. frumvarpsins. Þar hafa nú verið teknar út viðmiðanir gagnvart efni og tímalengd vélstjórasamningsins. Þannig telur ríkisstjórnin að hún hafi skorið sig niður úr þeirri snörunni. Eftir stendur meginefni frumvarpsins sem er gróf íhlutun í kjarasamninga sjómanna og útvegsmanna. Því hefur minni hlutinn mótmælt harðlega.

Minni hlutinn vill vekja athygli á því að fram kom í viðræðum nefndarinnar við Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna, að útvegsmenn gætu samþykkt frestun á verkfalli sjómanna til að ljúka mætti samningum með eðlilegum hætti. Í ljósi þess má ætla að ekki sé fullreynt hvort unnt væri að ná samningum milli deiluaðila ef þeir fengju tóm til þess.``

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan er einhuga um þetta nál. sem var samið í nótt að afloknum fundi í sjútvn.

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan er einhuga um að þetta frv. á að fara út í hafsauga. Það á ekki að setja lög á verkfall sjómanna. Stjórnarandstaðan telur að ríkisstjórnin hafi unnið sjómannasamtökunum og landinu stórtjón með þeirri aðferð sem notuð hefur verið. Verkfallið hefur óneitanlega skapað sjómannsfjölskyldum sem fá litla peninga úr verkfallssjóði erfiðleika, og auðvitað gera allir sér grein fyrir þrýstingi gagnvart fólki í fiskvinnslunni, gagnvart sveitarstjórnarmönnum, gagnvart útgerðarfyrirtækjunum, frystihúsunum og náttúrlega efnahagslífi landsins alls. Allir gera sér grein fyrir þessum þrýstingi. En það er mat mjög margra að einmitt á þeim tímapunkti þegar frv. kom fram á laugardaginn þá hafi verkfallið í raun verið byrjað að bíta og hafa áhrif. Því er ábyrgðarhluti, ef það mat er rétt, að setja á lög þegar verkfallið er rétt u.þ.b. að fara að bíta og e.t.v. þrír til fimm dagar eftir af verkfallinu.

Virðulegi forseti. Til lengri tíma litið verður á einhverjum tímapunkti að gera þessi mál upp gagnvart sjómannastéttinni. Blikur eru á lofti í öllu sem lýtur að aðbúnaði, kjörum og framtíð sjómannastéttarinnar. Nú er málum svo komið hjá þessari tæknivæddustu og afkastamestu fiskveiðiþjóð heimsins per einstakling --- og það er sjómönnum okkar að þakka --- nú er málum svo komið, virðulegi forseti, að ungt fólk er hætt að sækja í ríkum mæli skóla eins og Sjómannaskólann og Vélskólann. Til hvers leiðir það? Hvaða vísbendingar eru þar á ferðinni? Vísbendingar eru mjög klárar. Hvar sem maður ber niður, talar við ungt fólk í skólum, þá eru það launamálin. Það eru kjaramálin og það er allur aðbúnaður sjómannanna. Þetta eru hlutir sem verður að laga ef við ætlum áfram að vera í fremstu röð í heiminum, sem við óneitanlega erum, hvað varðar fiskveiðar og fiskvinnslu, sérstaklega hvað varðar fiskveiðar þar sem íslenskir sjómenn, hver einn og einasti er margra manna maki á við það sem gerist í öðrum löndum. Auðvitað er það menntunin ásamt tæknivæðingunni sem gerir okkur þetta kleift. En sú vísbending sem við fáum þegar unga fólkið hættir eða hefur ekki lengur áhuga á að sækja inn í eitthvert fag veldur því að blikur eru á lofti. Á þessum málum verður að taka núna og það er í samhengi við alla þessa deilu.

Verðmyndunarkerfið og mönnunarmálin standa út af og menn verða í sátt og samlyndi að taka þá törn sem til þarf einu sinni til þess að fara í gegnum það mál og fá nýjan flöt. Öðruvísi ganga þessi mál aldrei eðlilega fyrir sig. Að setja lög á sjómenn núna er að fresta núverandi ástandi, bullandi óánægju með skiptakjörin, en ekki síst óánægju með það hvernig aldraðir sjómenn koma út úr t.d. lífeyrissjóðum, hvernig sjómenn sem hafa lent í slysum koma út úr slysatryggingu. Grundvallaratriði sem nútímafjölskyldan horfir á í æ ríkari mæli er starfsumhverfi sjómannanna. Nútímafjölskyldan sættir sig ekki við það að mönnum sé skipað út og suður í plássin eins og hundum. Það er ekki hægt.

Útgerðarmunstrið hefur gjörbreyst sérstaklega á stærri skipunum á undanförnum örfáum árum. Öryggisleysi manna er orðið miklu meira. Þeim er, eins og ég sagði áðan, skákað á milli skipa eftir duttlungum útgerðarinnar. Það kemst rót á fjölskylduna og mönnum finnst að þeir hafi ekkert fast undir fótunum. Og það hangir allt á þessum pakka. Þar hangir líka spurningin um lífsstíl.

Virðulegi forseti. Ég hef sagt frá því einu sinni hér svona í framhjáhlaupi að á unglingsárum mínum á Dalvík voru sjómennirnir okkar reyndar að hlæja dálítið að Færeyingunum vegna þess að þeir sigldu í land á sunnudögum, fóru í sparifötin, fóru í kirkju klukkan ellefu og höfðu notalegan dag langt frá sínum heimahögum og sínu fólki. Harkan í útgerðinni okkar hefur leitt til þess að menn setja spurningarmerki við andlega heill og vellíðan sjómanna sem er mjög stórt dæmi. Þessi umræða hefur kannski aldrei farið almennilega af stað fyrr en eftir að við hófum veiðar í Smugunni. Með tilkomu Smuguveiðanna fóru menn kannski í fyrsta skipti opinberlega að tala um andlega líðan manna sem eru lokaðir undir dekki meira og minna svo vikum skiptir við það að veiða fisk og vinna hann. Þetta eru stór mál sem verður að huga að.

Og kappið við að ná í fiskinn og kappið við að gera út, það verður að taka á öllum þessum þáttum. Við sem eigum fjölskyldur sem lifa af þessu vitum nákvæmlega hvað þetta er þýðingarmikið. Þetta er mjög þýðingarmikill þáttur og við höfum öll sjálfsagt einhverja reynslu af því hvernig menn hafa farið út úr slíkum löngum útiverum til sjós.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mál mitt lengra að sinni. Ég kem e.t.v. seinna inn í umræðuna. En það er alveg á hreinu að þessi gerðardómsleið er ekki heppilegur vettvangur, sérstaklega vegna þess að gerðardómnum er gefin formúla í lögum. Ef menn hafa ekki eitthvað annað í huga samhliða þessari lagasetningu en frestun á verkfalli þá hefði þetta átt að vera einföld frestun sem, eins og ég hef sagt áður, virðulegi forseti, hefði þá leitt til þess að menn stæðu á þeim kjaranótum sem þeir búa við núna, og það væri einfaldur lagatexti. Og í framhaldi af því hefði það síðan náttúrlega verið miklu eðlilegri framgangsmáti ef samtök sjómanna og útgerðarmanna hefðu, kannski með tilstuðlan ríkisins, komið sér niður á það að skipa gerðardóm. Það er hinn eiginlegi gerðardómur. Eins og fram hefur komið hér í umræðunni, virðulegur forseti, má e.t.v. frekar líta á þessa uppsetningu mála sem nefnd en ekki sem eiginlegan gerðardóm. Gerðardómur er þess eðlis að hann er settur þegar tveir menn eða fleiri ná ekki saman um mál en geta verið sammála um að fá þriðja aðila til að koma að máli. Það er gerðardómur. Gerðardómur sem settur er í lögum af þessu tagi er í eðli sínu nefnd þó að þetta nafn sé notað og með formúlunni sem sett er inn í lagafrv. er náttúrlega augljóst að hverju menn stefna í sambandi við vinnu þessa gerðardóms.

Virðulegi forseti. Við munum beita því afli sem við höfum í stjórnarandstöðunni og Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði til að þessi lög verði ekki sett á sjómenn heldur freisti menn þess að ná samningum á eðlilegum nótum.