Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 17:48:23 (7843)

2001-05-15 17:48:23# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[17:48]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Eftir að ég vék úr ræðustól í dag, um þrjúleytið hafði borist inn í hv. Alþingi ályktun frá samninganefnd Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Fundur haldinn í samninganefnd Farmanna- og fiskimannasambands Íslands þann 15. maí 2001 mótmælir harðlega fyrirliggjandi frumvarpi til laga um kjaramál fiskimanna. Fundurinn lýsir yfir að ekki standi til að aflýsa yfirstandandi verkfalli fyrr en samningur við samtök útvegsmanna hefur tekist. Fundurinn skorar á ríkisstjórn Íslands að draga til baka lagafrumvarpið og veita samningsaðilum svigrúm til að ljúka deilunni með samningi. Ef ekki er orðið við þessari ósk skorar samninganefndin á Alþingi Íslendinga að hafna lagafrumvarpinu. Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi lýsir Farmanna- og fiskimannasamband Íslands fullri ábyrgð á hendur stjórnvalda.``

Fyrr í dag barst okkur einnig yfirlýsing Sjómannasambandsins þar sem þeir aflýsa verkfalli. Þeir gerðu það í þeim tilgangi að komast undan lagasetningunni og halda samningsrétti sínum. Í báðum þessum ályktunum, hvorri í sínu lagi, ítreka samtök sjómanna að þau vilja klára kjarasamninga sína, þau ná kjarasamningum. Það er eðlilegt og sjálfsagt hlutverk samningsaðila að krefjast þess réttar síns og var farið ágætlega yfir það í ræðu hv. síðasta ræðumanns.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að þegar maður lítur örlítið aftur í tímann þá finnst manni að þessi kjaramál sjómanna séu endurtekning á sömu baráttu um sömu veigamiklu atriðin. Hér er tekist á um mikilvæg mál eins og verðmyndunarmálin, hvernig þeim skuli fyrir komið, og um mönnunarmálin. Ég ætla hins vegar að ítreka, áður en lengra er haldið, að samtök sjómanna buðu fram sérstaka sátt í þessu máli. Menn mega ekki gleyma því í þessari umræðu. Það er eins og menn hafi gleymt því að öll samtök sjómanna buðu fram ákveðna sátt í janúar sl. sem byggði á því að hér yrði vinnufriður út árið. Boðið var upp á að sjómannasamtökin og Landssamband íslenskra útvegsmanna semdu um þrjú meginatriði, almennar launabreytingar sem, eins og ég hef farið hér yfir í fyrri ræðum mínum, vega lítið í heildarlaunum sjómanna, kauptrygging, tímakaup og aðrir kaupliðir; lífeyrisgreiðslur, sérstakar viðbótarlífeyrisgreiðslur og síðan slysatryggingar. Þetta voru atriðin sem sjómenn óskuðu eftir samningi um til þess að ná fram vinnusátt í öðrum erfiðum málum, m.a. verðlagsmálum og mönnunarmálum.

Menn mega ekki gleyma því þegar talað er um að það verði að setja lög á þessa deilu, hún hafi teygst á langinn og allt eftir því, að samtök sjómanna lögðu fram sérstakt sáttatilboð til að komast hjá þessari deilu, til að komast hjá því að lenda í þessari stöðu. Hverjir höfnuðu því? Það voru viðsemjendur þeirra, Landssamband íslenskra útvegsmanna, sem hafnaði því fyrirkomulagi, skammtímasamningi með sjómönnum út þetta ár til að tryggja vinnufrið í landinu.

Það er ekki eins og menn hafi gert þetta allt í einu upp úr þurru og ekki liðið einhver tími sem menn höfðu sýnt þolinmæði. Samningar höfðu verið lausir í ár og samt bjóða menn fram sáttaleið og henni er hafnað. Það er einfaldlega svo, hæstv. forseti, að í sögu sjómannasamtakanna er þetta ekki nýtt mál. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, fá að vitna hér í skýrslu Farmanna- og fiskimannasambandsins frá aðdraganda kjaradeilunnar sem leyst var með lögum árið 1998.

Sú deila hafði líka þróast lengi. Kjarasamningar sjómanna höfðu fallið úr gildi í árslok 1996 og þrátt fyrir margar viðræðutilraunir gekk ekkert að koma á nýjum kjarasamningi. Það hvorki gekk né rak. Þegar komið var fram í júní árið 1997, hálfu öðru ári eftir að samningurinn féll úr gildi og menn höfðu verið samningslausir í nærri 18 mánuði, þá tóku samtökin sér það fyrir hendur að ákveða að fara í fundaferð um landið. Þau byrjuðu á að fara á fund stjórnvalda um vorið 1997 og tilkynntu þeim til hvers mundi sennilega draga ef svo færi fram sem horfði, að enginn vilji væri hjá útvegsmönnum til að leysa þessa deilu. Útvegsmönnum var líka gert ljóst að sjómannasamtökin hygðust fara í sérstaka fundaherferð til að byggja upp samstöðu í þessu máli.

Á haustdögum 1997, í september, október, nóvember og desember voru haldnir fundir með um tvö þúsund sjómönnum, um borð í fjölda fiskiskipa í höfnum landsins. Þegar þeirri fundaherferð var lokið var liðið á annað ár. Upp var runnið árið 1998. Hins vegar var enga hugarfarsbreytingu að sjá varðandi kjarasamninga sjómanna hjá forustumönnum LÍÚ þrátt fyrir þessa fundaherferð og það að menn væru að safna sér verkfallsheimildum. LÍÚ-forustan taldi og lét það frá sér fara í ýmsum yfirlýsingum að engar líkur væru á að sjómannasamtökin næðu samstöðu um að fara í verkfallsaðgerðir til að knýja á um lausn kjarasamninga. Það var líkt og í aðdragandanum að deilunni sem við ræðum nú. Það endaði samt með því að samþykkt var að hefja verkfallsaðgerðir á árinu 1998.

Menn stóðu uppi með að samningsviðræðum yrði ekki komið af stað nema því aðeins að samtökin tækju sig saman og boðuðu til aðgerða. Það var gert. Ágreiningsmálin voru verðmyndunarmálin eins og áður, settur í þau sérstakur sáttasemjari, fyrrverandi forseti Alþýðusambandsins, Ásmundur Stefánsson, til að reyna að finna á þeim lausn. Ekki gekk það, eins og kerlingin sagði.

Mér finnst aðdragandinn að þeirri deilu sem við ræðum nú og þeirri deilu sem ég hef rifjað upp frá árunum 1996 og 1997, sem endaði með lögum 1998, vera ósköp líkur því sem við erum að fást við í dag. Það er ævinlega svo þegar sjómenn hafa reynt að grípa til aðgerða eftir langvarandi samningsleysi, margra mánaða samningsleysi, þá hefur það endað með lagasetningu á Alþingi. Það varð einnig niðurstaðan í lok mars árið 1998 að sett voru lög á kjaradeiluna.

Ég rifja þetta upp m.a. vegna þess --- ég gæti auðvitað farið lengra aftur í söguna en ég hyggst gera hér --- að það er líkt og það sé sjálfsagt að ef verkfallsvopninu er beitt gagnvart Landssambandi íslenskra útvegsmanna þá skuli það alltaf enda með því að stjórnvöld grípi til lagasetningar og geri þar með upptæk þau vopn sem verkalýðshreyfing hefur, í þessu tilfelli sjómannasamtökin sem hafa forðast að beita þeim ótæpilega. Þau hafa eingöngu beitt verkföllum þegar í nauðirnar hefur rekið, eftir að hafa verið samningslaus í fleiri mánuði.

[18:00]

Þess vegna segi ég það, herra forseti, að mér finnst óásættanlegt að standa hér enn á ný, nú frammi fyrir lagasetningu númer tvö á kjaradeilu fiskimanna. Ég er algjörlega andvígur þeirri lagasetningu sem á að fara hér fram og hlýt að lýsa fullri ábyrgð á ríkisstjórnarflokkana á þeirri málsmeðferð sem þeir viðhafa hér sem er auðvitað afleiðing af því að þeir gripu inn í deiluna á ótímabærum punkti í mars sl., tóku m.a. þrýstinginn úr deilunni að stórum hluta og deilan hefur dregist á langinn. Það er m.a. vegna verka stjórnvalda í málinu öllu saman.

Sjómenn mættu fyrir framan Alþingishúsið í dag til að mótmæla lagasetningunni og mótmæla því að fá ekki að gera eigin kjarasamninga við viðsemjendur sína. Þeim er eðlilega orðið heitt í hamsi yfir þessum aðgerðum sem er ævinlega gripið til af stjórnvöldum. Menn hljóta að spyrja sig í röðum sjómanna: Hvaða aðferðir hafa sjómannasamtökin í framtíðinni til þess að ná fram leiðréttingu á kjörum sínum eftir að hafa horft á það árum saman að hafa sýnt þá þolinmæði að vera með lausan kjarasamning mánuðum saman áður en gripið er til þess eina vopns sem launaþegasamtök hafa, þ.e. að boða til vinnustöðvunar til að knýja fram lausn, að hafa horft á það árum saman að ævinlega er klippt á aðgerðir þeirra með lagasetningu frá Alþingi? Sjómannasamtökin hljóta að fara að spyrja sig að því: Hvernig eiga samtök sjómanna að tryggja virka kjarabaráttu fyrir félagsmenn sína á komandi árum? Ekki er auðvelt að finna því farveg þegar svo er staðið að málum sem ég hef dregið fram. Auðvitað væri hægt að fara lengra aftur í söguna því að þessi saga er lengri þar sem stjórnvöld grípa ævinlega inn í með lagasetningu. Það er ævinlega fyrir sömu atvinnurekendurna í þessu landi sem gripið er til þessa ráðs.

Þess vegna orða ég það svo að LÍÚ hafi komið sér upp LÍÚ-vænum ríkisstjórnum á undanförnum árum, ríkisstjórnum sem hafa verið tilbúnar til að tryggja hagsmuni atvinnurekenda í þessa veru á kostnað sjómanna. Reyndar efast ég um, ef langt er litið inn í framtíðina, að verið sé að tryggja hagsmuni atvinnurekenda með slíkri aðgerð. Verið getur að menn séu nú að rífa undan sjálfum sér því að það kann að hitta menn fyrir þegar ævinlega er svo að málum staðið að mönnum tekst að fá aðra til að beita fyrir sig valdi. Ekki verður endalaust barið á sjómannastéttinni án þess að hún hljóti að finna sér einhverjar aðferðir til að bregðast við.

Við höfum séð viðbrögð sjómanna í öðrum löndum, þær eru mun harkalegri en hér. Ég er ekki að hvetja til að þannig verði að málum staðið en menn skyldu hugleiða það að svo lengi geta menn haldið áfram í þessu fyrir fram ákveðna lagafari sínu að hið deiga járn fari að bíta ef nógu vel er brýnt. Þannig kann það að vera. --- Sé ég nú að vinum mínum úr Sjálfstfl. fjölgar verulega í salnum mér til mikillar ánægju.

Það sem hér er að gerast og á að keyra hér í gegn er að binda deiluna niður í lagaumhverfi. Viðmiðin í því sambandi eru ekki styttri tími en fjögur og hálft ár. Enn þá er ekki hægt að lesa annað út úr frv. eins og það er, með tilliti til 2. gr., en að það sé beinn vegvísir í kjarasamning Vélstjórafélagsins, svokallaða ,,Laxdælu`` sem vísar veginn til kjarasamningsbindingar í fjögur og hálft ár, til ársloka 2005.

Það verður sennilega talið alveg sérstakt afrek ef það verður niðurstaða lagasetningarinnar en síðan gerðardómsins að binda kjaramál sjómanna föst í löglega gerð fram til ársloka 2005. Vafasamt verður að telja að slík gjörð standist alþjóðasamninga eða alþjóðalög sem við erum aðilar að. Íslensk stjórnvöld hafa fengið viðvaranir á undanförnum árum vegna lagasetninga sinna á kaup og kjör og kjaradeilur sjómanna meðal annars. Ég held að menn séu núna að teygja sig og reyna verulega á hvort það sem hér er að gerast standist slíkt.

Ég vil líka benda á að hér er í raun og veru verið að taka skref aftur á bak. Verið er að taka upp nýja viðmiðun í fiskverði, svokallað viðmiðunarverð hlutaskipta, sem við í minni hlutanum í sjútvn. nefnum í greinargerð okkar og segjum:

,,Afleiðing þessa kann að verða sú að til verði eins konar nýtt ,,landssambandsverð`` og að þeir aðilar sem hingað til hafa lagt sinn fisk inn á markað kjósi þá frekar að nýta sér hið nýja ,,landssambandsverð`` til uppgjörs á aflahlut sjómanna.``

Það skyldi þó ekki vera að það yrði afleiðingin af þessu að minna yrði selt á fiskmörkuðum en verið hefur á undanförnum árum? Þá hefur ríkisstjórnarflokkunum tekist að stíga skref aftur á bak í þeirri þróun verðmyndunar sem verið hefur á fiskmörkuðum á undanförnum árum, þróun sem flestallir hafa talið að væri eðlileg og sjálfsögð inn í framtíðina, að verðmyndun á fiski færi fram á uppboðsmörkuðum, a.m.k. á verði sem tengdist þeirri viðmiðun. En hér er sennilega verið að stíga skref aftur á bak og sennilega gætum við verið að nálgast það, ef svo fer sem horfir, að þetta verði bundið til fjögurra, fimm ára og jafnvel aðilar sem hafa vísað sig frá deilunni með því að aflýsa verkfalli sínu kynnu að vera tengdir inn í þetta mál vegna þess að LÍÚ hefur lýst á þá verkbanni, sætu einnig uppi með þessa gjörð. Ég vona að svo verði ekki og að orð hæstv. sjútvrh. í gær standi til þess að svo verði ekki gert, og að þær breytingar muni koma fram á þessu frv. milli 2. og 3. umr. að þeir sem aflýst hafa vinnustöðvunum sínum verði ekki teymdir inn í þennan gerðardóm eða þessa lagagerð.

Ég óttast hins vegar, eins og ég sagði áðan, að við séum hér að stíga skref sem muni færa okkur aftur á bak í verðmyndunarmálum fisks hér á landi og að við stefnum í það að finna nýtt landssambandsverð á fisk. Það fer þá að nálgast hið gamla verðlagsráðsverð en eins og þeir muna sem hafa kynnt sér söguna varð verðlagsráðið til og stofnsett hér á landi eingöngu vegna þess að áður fyrr stóðu einnig miklar deilur um fiskverð í upphafi hvers árs þegar ákveða þurfti fiskverð fyrr á síðustu öld. Vonandi erum við ekki að hverfa það langt aftur í fortíðina en það er margt sem bendir til þess að það geti orðið afleiðingarnar.

Herra forseti. Þó að mig blóðlangi til að halda umræðunni áfram langt fram á kvöld ætla ég ekki að láta það eftir mér. Ég ætla frekar að vonast til þess að málið verði tekið til skoðunar og lagfært í sjútvn. Ég ætla enn þá að leyfa mér að trúa því þangað til málið kemur endurskoðað út úr sjútvn. að skynsemin sé til staðar hjá hv. stjórnarliðum og menn vilji líta örlítið á það hvernig málin hafa þróast, m.a. í dag með yfirlýsingu Sjómannasambandsins og Farmannasambandsins. Ég minni á í því sambandi að forustumaður útgerðarmanna sagði við okkur í sjútvn. að það væri vissulega vilji þeirra að ná samningum, þannig ætti að enda þetta mál, þó að hann vildi ekki í annan stað láta það koma fram að hann væri beinlínis á móti lagasetningunni. Það er alveg ljóst hvaðan óskirnar koma um lagasetninguna og það er alveg ljóst í stöðunni eins og hún er komin upp núna þegar þarf að tengja lagasetningu við verkbann LÍÚ, jafnvel á félög sem hafa aflýst vinnustöðvun að það er auðvitað LÍÚ sem ræður gerð lagasetningarinnar og hvernig hún lítur út. Auðvitað eru stjórnarliðar að þjónka nákvæmlega undir LÍÚ í þessari framsetningu, nákvæmlega eins og þeir vilja hafa málin. Enda var það forusta LÍÚ sem hafnaði sáttatilboði í janúar, hafnaði því að hér væri vinnufriður út allt þetta ár, til að koma málum í þessa stöðu, sitjandi uppi með langt verkfall, bíðandi eftir því að lagasetning kæmi sem þjónkaði þeim. Til þess fengu þeir sérstakan undirbúning með kjarasamningnum ,,Laxdælu`` sem dregið hefur niður kjör manna eins og hann er úr garði gerður.

Herra forseti. Ég vona enn þá að skynsemin ráði för og að menn beri gæfu til að laga þá löggjöf sem hér á að fara að festa.